fim. 30. júlí 2015 08:29
Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kvennalið Stjörnunnar treystir á Youtube

Stjarnan í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu fékk öfluga viðbót við hóp sinn í gær er Rachel Pitman samdi við liðið út tímabilið.

Pitman, sem er 23 ára, hefur leikið með öllum yngri landsliðum Englands, en hún lék bæði með Arsenal og Watford áður en hún fór í nám til Chicago í Bandaríkjunum. Hún hefur undanfarin tvö ár leikið með Seattle Sounders í 2. deildinni í Bandaríkjunum, en er nú á leið í Stjörnuna. Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari liðsins, er spenntur fyrir leikmanninum, en hefur þó einungis séð myndbönd af frammistöðu hennar á netinu. „Þetta er breskur varnarmaður sem lék í Bandaríkjunum og við erum að vona að hún geti styrkt okkur. Það er svolítið happdrætti þegar maður sér fólk á myndbandi og hefur ekki séð það með berum augum, en við vonum að hún hjálpi okkur þar sem Anna María fer út,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið í gær.

Þetta er þriðji leikmaðurinn sem Stjarnan fær til sín í glugganum, en liðið hefur þegar fengið þær Francielle Manoel Alberto og Jaclyn Nicole Softli. Ólafur segir ekki ákveðið hvort fleiri leikmenn komi, en mikið leikjaálag verður á Stjörnunni í kjölfar þess að liðið spilar í forkeppni Meistaradeildar Evrópu auk þess sem liðið er í titilbaráttunni í deildinni og úrslitaleik Borgunarbikarsins. „Ég veit það ekki alveg, það er ekkert ákveðið í því, en hópurinn er að þéttast. Anna María fer út, Sigríður Þóra fór í Aftureldingu og svo er Sigrún Ella meidd auk þess sem við sendum einn útlending heim í sumar svo við þurfum að hafa þéttan hóp í leikjatörninni og okkur langar að standa okkur vel í Evrópukeppninni.“ brynjar@mbl.is

 

til baka