sun. 30. ágú. 2015 19:57
Kristján Flóki Finnbogason og Viktor Bjarki Arnarsson í baráttu um boltann á Kaplakrikavelli í kvöld.
FH komið í afar vænlega stöðu

FH og Vík­ing­ur R. mættust í 18. um­ferð Pepsi­deild­ar karla í knatt­spyrnu á Kaplakrika­velli í kvöld. Fyr­ir um­ferðina var FH á toppi deildarinnar með 39 stig, fjór­um stig­um fyr­ir ofan Breiðablik sem var í öðru sæti. Vík­ing­ur sigl­ir hins vegar lygn­an sjó í sjötta sæti með 21 stig. Lokatölur í leiknum urðu 1:0 fyrir FH sem er þar eð komið með sex stiga forystu á toppi deildarinnar.

FH var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik og mark FH lá í loftinu allan fyrri hálfleikinn. Besta færi fyrri hálfleiks féll reyndar í skaut Víkings á upphafsmínútu leikins þegar Rolf Toft fékk boltann fyrir framan mark FH eftir fast skot Vladimir Tufegdzic en Toft hitti ekki markið.

Leikmenn FH vöknuðu af værum blundi við færið sem Toft fékk og tóku öll völd á vellinum. FH-ingar voru mun meira með boltann og sóttu af miklum móð. Boltinn hafði meira og minna verið við vítateig Víkings allan fyrri hálfleikinn og eitthvað varð undan að láta.

Sóknarþungi FH bar árangur á 39. mínútu leiksins þegar Alan Alexender Lowing braut á Atla Guðnasyni innan vítateigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Steven Lennon fór á punktinn og skoraði sitt sjöunda mark í Pepsi deildinni í sumar úr vítaspyrnunni.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Víkingur gott færi til þess að jafnan metin. Pétur Guðmundsson, dómari leiksins, gerði þá mistök með því að hleypa Vladimir Tufegdzic inna á völlinn, eftir að hugað hafði verið að meiðslum hans, á þeim stað þar sem FH-ingar voru að hefja uppspil sitt.

Vladimir Tufegdzic stal boltanum af Böðvari Böðvarssyni og í kjölfarið lék Pétur Viðarsson  boltanum til Róberts Arnar Óskarssonar sem tók boltann upp. Pétur Viðarsson lék boltanum viljandi til Róberts Arnar að mati Péturs Guðmundssonar sem dæmdi óbeina aukaspyrnu. Víkingur náði þó ekki að færa sér þetta í nyt, en Igor Taskovic skaut í varnarvegginn úr óbeinu aukaspyrnunni.

Leikurinn var bæði opnari og jafnari í seinni hálfleik.

Pétur Viðarsson var nálægt því að tvöfalda forystu FH liðsins í upphafi seinni hálfleiks, en Thomas Nielsen varði skot hans frábærlega og boltann hafði svo í stönginni og rann meðfram línunni á marki Víkings.

Liðin fengu svo sitt hvort dauðafærið um miðbik seinni hálfleiks. Fyrst slapp Atli Guðnason einn gegn Thomasi Nielsen, markverði Víkings, eftir klaufagang hjá Alan Lowing, en Thomas bjargaði félaga sínum með góðri markvörslu.Rolf Toft fékk svo úrvalsfæri eftir góða fyrirgjöf frá Vladimir Tufegdzic, en Toft skóflaði boltanum yfir.

Jeremy Serwy var svo nálægt því að skora glæsilegt mark þegar skot hans beint úr aukaspyrnu hafnaði í samskeytunum.

Hallgrímur Mar Steingrímsson lék svo sama leikinn hinum megin á vellinum þegar hann skaut í slána úr aukaspyrnu. 

Fyr­ir um­ferðina var FH á toppi deildarinnar með 39 stig, fjór­um stig­um fyr­ir ofan Breiðablik sem var í öðru sæti. KR gerði jafntefli við Val og Breiðablik gerði sömuleiðs jafntefli gegn Leikni. FH er þar af leiðandi komið í ansi vænlega stöðu með sex stiga forystu á toppi deildainnar.

Vík­ing­ur sigl­ir hins vegar lygn­an sjó í sjötta sæti með 21 stig.

til baka