sun. 29. nóv. 2015 00:21
Emilía Rós Ómarsdóttir.
Tvísýn keppni á Íslandsmóti ÍSS
Eins og búist var við skilja aðeins örfá stig að efstu stúlkur á Íslandsmóti Skautasambands Íslands sem fer nú fram í Skautahöllinni í Laugardal.

Emilía Rós Ómarsdóttir, SA, er fyrst eftir fyrri keppnisdag í unglingaflokki A, með 35.21 stig og náði með þeim árangri viðmiðum fyrir stutta prógramið í úrvalshóp sambandsins en áður hafði hún skilað inn viðmiðum í langa prógraminu. Agnes Dís Brynjarsdóttir, SB, er í öðru sæti en aðeins munar 1 stigi á þeim Agnesi og Emilíu. Kristín Valdís Örnólfsdóttir, SR, fylgir þeim svo fast á hæla með 33.31 stig.

Júlía Grétarsdóttir, SB, er að keppa á sínu fyrsta móti á Íslandi á þessu keppnistímabili og er jafnframt eini keppandinn í kvennaflokki A. Júlía er með 33.30 stig eftir stutta prógramið í dag.

Í stúlknaflokki A eru SA stúlkurnar Marta María Jóhannsdóttir og Aldís Kara Bergsdóttir í fyrstu tveimur sætunum, Marta er með 26.20 stig og Aldís með 24.28 stig. Herdís Birna Hjaltalín, SB, fylgir Aldísi fast á hæla í þriðja sætinu með 23.97 stig.

Þess má geta að Herdís og Thelma Kristín Maronsdóttir, SR, voru líkt og Emilía að skila inn viðmiðum í úrvalshóp fyrir stutta prógramið. Keppendur þurfa að ná viðmiðum bæði fyrir stutta og langa prógramið til að vera gjaldgengir í val í landslið sem m.a. fer á Norðurlandamót og á Junior Grand Prix mótaraðirnar.

Keppni hefst kl. 8 í fyrramálið hjá 12 ára og yngri B.

Kl. 9.25 hefst keppni í langa prógraminu; fyrst hjá stúlknaflokki A, síðan kl. 10.35 hjá unglingaflokki A og að lokum kl. 11.50 hjá kvennaflokki A.
til baka