sun. 29. nóv. 2015 13:07
Didier Drogba og José Mourinho er miklir vinir.
„Mourinho breytti lífi mínu“

Sóknarmaðurinn Didier Drogba segir að José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hafi breytt lífi sínu. Drogba lék undir stjórn Mourinho hjá Chelsea frá 2004-2007 og svo aftur á síðasta keppnistímabili.

„Ég held að allir viti að hann er maður sem ég ber mikla virðingu fyrir. Hann breytti ekki einungis mínu lífi heldur einnig fjölskyldunnar minnar. Ég er frá Afríku og þar á elsta systkinið að sjá um alla fjölskylduna og hann leyfði mér að gefa fjölskyldu minni von,“ sagði Drogba við Sky Sports.

Samband þeirra var alla tíð mjög gott og Droga reyndi ávallt að standa sig vel. „Hann treysti mér fullkomlega og ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til að standa mig vel fyrir hann.“ 

Aðspurður sagði sóknarmaðurinn sterki að skilaboð Mourinho hafi yfirleitt verið einföld og hnitmiðuð. Tók hann dæmi frá síðasta tímabili, þegar hann var oft í hlutverki varamanns hjá Chelsea. „Í fyrra þegar ég var á bekknum þá gaf hann mér skýr skilaboð: „Þú hefur 10 mínútur, skoraðu mark!““ 

Drogba var þekktur fyrir að standa sig vel gegn stóru liðunum og Mourinho átti það til að gera grín að því. „Í eitt skiptið kom ég inn á gegn liði Steve Bruce. Honum leist ekki vel á að fá mig inn á völlinn og sagði „ó nei, ekki hann aftur.“ Mourinho svaraði honum þá strax: „Engar áhyggjur, hann skorar bara gegn stóru liðunum!““ sagði Drogba og hló.

til baka