sun. 29. nóv. 2015 14:59
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í dag.
Þrettán marka tap gegn Noregi

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik fékk annan skell í dag þegar liðið mætti sterku B-liði Noregs í vináttulandsleik ytra.

Norðmenn unnu leikinn með 13 marka mun, 36:23, eftir að hafa verið 17:12 yfir í hálfleik. Í gær unnu þær norsku, undir stjórn Axels Stefánssonar, 10 marka sigur í leik þjóðanna, 31:21.

Íslenska liðið hélt aðeins í við það norska fyrstu mínútur leiksins, en eftir að staðan hafði verið 7:7 komst Noregur í 16:9 og var 17:12 yfir í hálfleik. Munurinn hélst í 5-6 mörkum framan af seinni hálfleik en Ísland komst aldrei nær.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Íslands með 6 mörk í 11 skotum, en hin reynda landsliðskona Ida Alstad var markahæst hjá Noregi með 6 mörk.

Mörk Íslands: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 6, Sólveig Lára Kjærnested 5, Karen Knútsdóttir 4, Arna Sif Pálsdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 2, Rut Jónsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Ramune Pekarskyte 1.

til baka