mán. 8. feb. 2016 09:47
Luis Suárez er markahæstur í spænsku 1. deildinni með 20 mörk.
Barcelona einum leik frá félagsmeti

Knattspyrnulið Barcelona er einum leik frá því að setja nýtt félagsmet eftir að hafa unnið sinn tíunda leik í röð í gær, þegar liðið vann Levante 2:0 í 100. leiknum undir stjórn Luis Enrique.

Þetta var 28. leikur Barcelona án þess að tapa og þar með jafnaði liðið félagsmetið sem sett var á leiktíðinni 2010-11. Metið gæti fallið á miðvikudagskvöld þegar Börsungar sækja sveina Gary Neville í Valencia heim, í seinni leik liðanna í undanúrslitum spænska konungsbikarsins. Barcelona vann fyrri leikinn 7:0 og því nánast öruggt um að komast í úrslitin, en þarf að forðast tap til að slá metið.

Barcelona vann þrennuna eftirsóttu á síðustu leiktíð, þeirri fyrstu undir stjórn Enrique, og á góða von um að endurtaka leikinn. Liðið er með þriggja stiga forskot á Atlético Madrid á toppi spænsku 1. deildarinnar, og á leik til góða, nánast öruggt um að komast í bikarúrslitaleikinn, og komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem það mætir Arsenal.

til baka