fös. 6. maí 2016 11:27
Hlynur Bæringsson.
Sundsvall er gjaldþrota

Sænska körfuknattleiksfélagið Sundsvall Dragons hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum en með liðinu spilar landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson og hefur verið einn lykilmanna þess undanfarin ár.

Þetta kemur fram á vef sænska ríkissjónvarpsins. Sundsvall Dragons hefur lengi glímt við mikil fjárhagsvandræði og ný stjórn félagsins mat stöðuna þannig að óumflýjanlegt væri að óska eftir gjaldþrotaskiptum.

„Við höfum látið leikmenn okkar vita í gegnum þær samskiptaleiðir sem við höfum og nú erum við að hringja út og tilkynna þetta öllum sem málið varðar," segir Lars Kallin, nýr formaður félagsins, við svt.se.

Sundsvall hefur verið í baráttu í efri hluta sænsku úrvalsdeildarinnar undanfarin ár. Liðð endaði í sjötta sæti í vetur og féll síðan út gegn Norrköping Dolphins, 3:1, í átta liða úrslitunum um meistaratitilinn. 

Hlynur hefur leikið með Sundsvall frá 2010 en áður hafa einnig þeir Jakob Örn Sigurðarson, Ægir Þór Steinarsson og Ragnar Nathanaelsson spilað með Sundsvall.

til baka