fös. 6. maí 2016 11:37
Albert Tumenov hefur unnið fimm bardaga í röð og 13 af síðustu 14 UFC-bardögum sínum.
Rota Gunnar í fyrstu lotu

Albert Tumenov er afar öruggur með sig fyrir UFC-bardagann við Gunnar Nelson á sunnudagskvöld og segist reikna með því að rota Gunnar strax í fyrstu lotu.

Tumenov er í 13. sæti styrkleikalista UFC í veltivigt, en Gunnar er dottinn út af þeim lista eftir tap gegn Demian Maia í desember. Tumenov er afar höggþungur og hefur unnið 11 bardaga með rothöggi. Hann hefur nú unnið fimm bardaga í röð og ætlar að bæta þeim sjötta við á sunnudagskvöld í Amsterdam:

„Við erum búnir að horfa á bardaga Gunnars Nelson og greina hann. Hann er virkilega góður í fangbrögðum (e. grappling) en þetta er MMA og við munum ekki bara berjast niðri á gólfinu. Hérna má nota hnefaleika, spörk, glímu og hvað sem er, ekki bara fangbrögð,“ sagði Tumenov við rússneska miðilinn Fight Time.

Næst vil ég einhvern af efstu fimm

„Ég tel að ég sé mun betri bardagamaður en hann. Við skulum sjá hvernig bardaginn þróast og hvorum tekst að nýta sína styrkleika. Ég er viss um að það ræður úrslitum. Ég er kallaður Einstein, við erum búnir að finna lausnir og ég tel að ég muni rota hann í fyrstu lotu. Þannig líður mér en við sjáum til,“ sagði Tumenov, öruggur með sig, og hann er jafnvel farinn að horfa til næsta bardaga eftir bardagann við Gunnar.

„Við hlökkum alltaf til en ég er ekki á nokkurn hátt að vanmeta Gunnar Nelson. Við erum vel undirbúnir og ég vona að með hjálp æðri máttarvalda munum við hafa betur. Eftir þennan bardaga vil ég auðvitað keppa við einhvern af þeim fimm efstu á styrkleikalistanum. Þar eru menn eins og Carlos Condit, sem er mjög góður og með einna bestu höggin í UFC. Það væri spennandi að berajst við hann. Svo eru það Matt Brown og Demian Maia sem eru að fara að berjast, og það væri kannski hægt að mæta sigurvegaranum úr þeim bardaga. Við sjáum til,“ sagði Tumenov.

til baka