mán. 30. maí 2016 21:26
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Íslendingar snúi aftur heim

Það er eitt af mikilvægustu verkefnunum sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir að búa svo um hnútana að þeir Íslendingar sem hafa sótt sér reynslu og menntun erlendis velji að snúa aftur heim – að Ísland verði samkeppnishæft samfélag.

Þetta kom fram í máli Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Hún sagði að slíkt samfélag yrði aðeins byggt á traustum stoðum, stöðugu og sterku efnahagskerfi, blómlegu byggða- og atvinnulífi og ábyrgri fjármálastjórn.  Í þeim efnum hefði margt áunnist á kjörtímabilinu.

Hagur íslenskra heimila hefði til dæmis vænkast verulega og samkvæmt greiningum Seðlabanka Íslands hefði staða þeirra sjaldan verið betri.

Skuldastaðan hefði jafnframt gjörbreyst til hins betra á örfáum árum og skuldir ekki verið lægri síðan 1999.  

Kaupmáttur launafólks hefði aukist um nærri 24% á síðustu þremur árum og Seðlabankinn áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna hækki um 9% í ár.

Störfum hefði fjölgað hratt og atvinnuleysi væri með því minnsta í Evrópu.

Þá nefndi Lilja að algjör kúvending hefði orðið á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins þar sem taflinu hefur verið snúið við og staðan ekki verið betri í fimmtíu árVið værum nú í styrkleikaflokki með Bretum og Frökkum, en vorum áður flokkuð með Grikklandi og Kýpur. Þar væri ólíku saman að jafna.

 

Margir efuðust

„Í þessari skák var farsæl lending í málefnum slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja lykilatriði. Hún markaði þáttaskil í endurreisn fjármálakerfisins og lagði grunninn að þeim mikla árangri sem hefur náðst. Í upphafi þeirrar vinnu efuðust margir um þær hugmyndir sem Framsóknarflokkurinn lagði fram um að kröfuhafar létu af hendi hundruð milljarða króna,“ sagði Lilja.

Þessi einstaka staða skapaðist ekki af sjálfu sér, heldur endurspeglaði hún þá festu og stefnu sem ríkisstjórnin hefði unnið eftir. Með henni væi búið í haginn fyrir framtíðina, því vaxtagreiðslur ríkisins myndu minnka um tugi milljarða sem í staðinn nýtast til mikilvægra samfélagsverkefna.

Enginn hópur sitji eftir

Lilja nefndi að vinna undanfarinna ára miðaði að því að bæta hag landsmanna í nútíð og framtíð.

„Við viljum að fólk geti sótt sér menntun við hæfi og komið sér upp þaki yfir höfuðið án þess að skuldsetja sig úr hófi. Við viljum í sameiningu stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, þar sem nýjar atvinnugreinar dafna samhliða þeim hefðbundnu.“

Að lokum sagði Lilja að efnahagslegri uppbyggingu væri að langmestu leyti lokið hér á landi. Ísland væri með sterk spil á hendi en verkefnið fram undan væri að spila þeim rétt út þannig að enginn þjóðfélagshópur sitji eftir.

til baka