mán. 27. júní 2016 21:16
Roy Hodgson á hliðarlínunni í kvöld.
Hodgson neitaði að svara fjölmiðlum

Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, gaf ekki fjölmiðlamönnum færi á spurningum þegar hann kom á blaðamannafund eftir 2:1-sigur Íslands í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu.

Hodgson staðfesti að þetta hefði verið síðasti leikur Englands undir hans stjórn og það væru vonbrigði að hafa skilið liðið eftir í þessari stöðu.

„Samningur minn var alltaf búinn eftir keppnina og nú er komið að öðrum að taka við þessum leikmönnum sem hungrar í árangur,“ sagði Hodgson, greinilega hundsvekktur.

„Ég er gríðarlega vonsvikinn auðvitað. Við höfum ekki komist eins langt og ég hélt við gætum og það er óviðunandi. Ég er stoltur af starfi okkar þjálfarateymisins, að hafa breytt liðinu frá því að vera með meðalaldur um þrítugt í að vera með yngsta hópinn í keppninni,“ sagði Hodgson og reyndi að draga eitthvað jákvætt fram í ljósið.

Leikmennirnir hafa gert allt sem við höfum beðið þá um, þeir elska að spila fyrir þjóð sína og þeirra skuldbinding hefur verið mögnuð. Ég vil þakka öllu mínu þjálfarateymi, knattspyrnusambandinu og stuðningsmönnunum. Þetta hefur verið frábær vegferð sem ég mun líta til baka til með stolti.

Eina sem ég get gert er að vonast til þess að við munum sjá enskt lið í úrslitaleik stórmóts á næstunni,“ sagði Hodgson áður en hann stóð upp og fór. Fjölmiðlafulltrúi Englands sagði að engar spurningar yrðu leyfðar og ekki væri hægt að taka Hodgson í viðtal.

Um leið og þjálfarinn var farinn af blaðamannafundinum gekk enska pressan stíft á eftir fjölmiðlafulltrúanum og krafðist skýringa – sem ekki fengust.

til baka