þri. 28. júní 2016 18:40
Ólíklegt er að IKEA verði opnað á Akureyri.
IKEA á Akureyri komin á ís

Áform um IKEA-verslun á Akureyri hafa verið sett á ís og stefnt er að því að hafa frekar varanlegt þak á sendingarkostnaði til þess að þjónusta landsbyggðina betur. Ætlunin var að opna um fjögur til fimm þúsund fermetra verslun á Norðurlandi.

Í sumar hefur verið þak á sendingarkostnaði á vörum frá IKEA og fer kostnaðurinn ekki yfir tíu þúsund krónur óháð þyngd og stærð vörunnar. Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir þetta hafa reynst mjög vel og tekur eftir mikilli aukningu á pöntunum af landsbyggðinni. 

Fer ekki yfir tíu þúsund krónur

Að sögn Þórarins hafa í gegnum tíðina fjölmargar kvartanir borist af landsbyggðinni sökum þess að sendingarkostnaðurinn er mjög hár og þá sérstaklega í samanburði við vöruverðið sem oftast er í lægri kantinum. „Þetta hefur verið mikill höfuðverkur og við vorum þess vegna með hugmyndir um að opna á Akureyri og ná þannig að þjónusta Norðurlandið og jafnvel Norðausturland. En það var á hinn bóginn engin redding fyrir Suður- og Vesturland,“ segir hann.

Því ákváðu stjórnendur IKEA að fara í tilraunasamstarf með Samskipum með áðurnefnt þak á sendingarkostnaði. Ekki skiptir máli hvort verið sé að panta eldhúsinnréttingu með öllu tilheyrandi eða bókahillu. Kostnaðurinn fer ekki yfir tíu þúsund krónur. Þórarinn segir að þetta hafi gengið mjög vel og bendir á að fólk sé jafnvel að safna saman í pantanir til að lækka kostnaðinn hlutfallslega.

 

Niðurgreiða sendingarkostnaðinn

„Það má segja að við séum að einhverju leyti að niðurgreiða heimsendingar út á landsbyggðina og það er að minnsta kosti mótspil í staðinn fyrir að opna vöruhús á einum stað,“ segir Þórarinn. Kostnaðurinn við niðurgreiðsluna sé minni þar sem dýrt sé að opna nýja verslun.

Þórarinn segir samkomulagið milli Samskipa og IKEA koma báðum aðilum nokkuð vel þar sem flutningabílar séu oft að koma fullir til baka frá sjávarþorpum landsins en fara hálftómir út á land. „Þetta hentar því einnig ágætlega fyrir okkar samningsaðila.“

Þórarinn telur mjög líklegt að fyrirkomulagið verði varanlegt ef áframhaldandi samningar nást við Samskip.

til baka