þri. 28. júní 2016 19:03
Kortanotkun Íslendinga hríðféll meðan á leiknum gegn Englandi stóð í gærkvöldi.
Kortanotkun jókst um allt að 1200%

Kortanotkun Íslendinga í Frakklandi er allt að 1.200% meiri frá miðjum júnímánuði miðað við meðalár, samkvæmt upplýsingum frá Valitor.

Fjölmargir Íslendingar hafa skellt sér til Frakklands í sumar til þess að fylgjast með landsliðinu á Evrópumótinu í knattspyrnu. Valitor hefur borið saman kortanotkun Íslendinga í Frakklandi frá 10. júni í ár við notkunina í fyrra. Er aukningin á milli ára sláandi, eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.

 

 

Einnig hafa miklar sveiflur í kortanotkun á leikdögum íslenska landsliðsins vakið athygli. Kortanotkunin hríðféll til að mynda meðan á leik Íslands og Austurríkis stóð 22. júní og það sama var upp á teningnum í gær, þegar Ísland bar England ofurliði.

Á súluritinu hér fyrir neðan er kortanotkun Íslendinga hér á landi borin saman við notkunina á venjulegum degi, nánar tiltekið mánudeginum fyrir rúmri viku. Upp úr klukkan 18 er notkunin heldur meiri en að jafnaði en hún fellur síðan hratt um leið og leikurinn hefst klukkan 19.

Notkunin eykst talsvert í leikhléinu en nær sögulegu lágmarki undir lok leiksins.

til baka