mán. 25. júlí 2016 09:49
Julia Stepanova fær ekki að keppa í Ríó.
WADA lýsir yfir vonbrigðum

Alþjóðalyfjaeftirlitið, WADA, hefur lýst yfir vonbrigðum með þá niðurstöðu Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, að setja ekki allt rússneskt íþróttafólk í keppnisbann fyrir Ólympíuleikana í Ríó.

IOC tilkynnti í gær að ákveðið hefði verið að fela heimssamböndunum í hverri íþróttagrein fyrir sig að taka ákvörðun um hvort rússneskir keppendur í þeirra íþrótt fengju heimild til að keppa í Ríó.

WADA sendi frá sér yfirlýsingu þar sem ákvörðun IOC er viðurkennd, en jafnframt lýst yfir því að staðið verði áfram við fyrri ályktun eftirlitsins um að IOC hefði átt að útiloka allt rússneskt íþróttafólk frá leikunum.

WADA lýsti ennfremur yfir áhyggjum af þeirri ákvörðun IOC að Julia Stepanova fengi ekki að keppa í Ríó sem keppandi án ríkisfangs. IOC gaf út að enginn íþróttamaður sem fallið hefði á lyfjaprófi fengi keppnisrétt í Ríó, og að Stepanova myndi falla undir þá skilgreiningu. Hún átti stóran þátt í að vekja athygli á kerfisbundinni lyfjamisnotkun í Rússlandi.

„Stepanova var í stóru hlutverki þar sem hún sýndi mikið hugrekki við að upplýsa um stærsta lyfjahneyksli allra tíma. WADA hefur miklar áhyggjur af þeim skilaboðum sem send eru uppljóstrurum framtíðarinnar með þessari ákvörðun IOC,“ segir í tilkynningu WADA.

til baka