þri. 26. júlí 2016 16:55
Þessar myndir af fólkinu voru birtar af yfirvöldum í Þýskalandi í vor.
Telja þremenningana dvelja í Hollandi

Lögregluyfirvöld í Hollandi hafa beðið fólk að vera á varðbergi vegna þriggja þýskra fyrrverandi meðlima Baader Meinhof-skæruliðasamtakanna, sem hafa verið eftirlýstir í áraraðir og eru grunaðir um röð rána.

Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að mögulega haldi þremenningarnir til í Hollandi, en um er að ræða Ernst-Volker Staub, 61 árs, Burhard Garweg, 47 ára, og Danielu Klette, 57 ára. Þau eru eftirlýst vegna árása á brynvarða fjármagsflutningabíla og að minnsta kosti sex matvöruverslanarána.

Frétt mbl.is: Snéru úr felum og frömdu rán

Samkvæmt lögreglu frömdu þremenningarnir glæpi við landamæri Hollands og Þýskalands en þau hafa ekki verið handtekin í Þýskalandi og slökkt var á farsíma eins þeirra í Hollandi.

Talið er mögulegt að fólkið hafist við á afskekktum sveitabæ eða í stórborg og að það færi sig reglulega um set. Þá er talið líklegt að tríóið þykist vera ferðamenn.

Að sögn lögreglu er fólkið talið vopnað og hættulegt og fólk hefur verið varað við því að nálgast það.

 

til baka