sun. 28. ágú. 2016 21:48
Pálmi Rafn Pálmason og Orri Sigurður Ómarsson í baráttu á Valsvellinum í kvöld.
Valur vann eftir mikla dramatík

Valur skaust upp í þriðja sæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu eftir 2:0 sigur sinn gegn KR í 17. umferð deildarinnar á Valsvellinum í kvöld. Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði bæði mörk Vals í leiknum, að fyrra úr vítaspyrnu, en það seinna með góðu skoti af vítateigslínunni. Valur er í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig, en KR er hins vegar í áttunda sæti með 23 stig. 

Staðan var markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja sinna í hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var hins vegar ansi fjörugur og bæði lið fengu aragrúa af færum til þess að komast yfir. Andri Adolphsson, Kristinn Freyr Sigurðsson og Kristinn Ingi Halldórsson voru atkvæðamestir í liði Vals, en Morten Beck, Óskar Örn Hauksson og Denis Fazlagic hjá KR-ingum.

Michal Præst þurfti að yfirgefa völlinn eftir rúmlega fimmtán mínútna leik, en hann hafði fengið höfuðhögg og gat ekki haldið leik áfram. Valsmenn voru hársbreidd frá því að notfæra sér meiðsli Præst, en Kristinn Freyr Sigurðsson nýtti sér það að Daninn lá eftir á vellinum og kom sér í góða stöðu án þess að vera dæmdur rangstæður.

Það var sama uppi á teningnum í seinni hálfleik. Bæði lið sóttu af miklum krafti án þess að ná að brjóta ísinn. Liðin léku skemmtilegan fótbolta þar sem boltinn gekk hratt og örugglega milli leikmanna í fáum snertingum. Áfram sköpuðu liðin urmul af færum, en inn vildi boltinn hins vegar ekki.

Skúli Jón Friðgeirsson var áminntur í annað skipti um miðbik seinni hálfleiks, en seinni áminningin var fyrir kjaftbrúk. KR-ingar léku því einum leikmanni færri í um það bil 25 mínútur Valsmenn tóku öll völd á vellinum eftir að Skúla Jóni hafði verið vikið af velli.

Valsmenn sem höfðu veri að ná tökum á leiknum komust yfir skömmu eftir að Skúla Jóni var vísað af velli. Þar var að verki Kristinn Freyr Sigurðsson sem skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var á Morten Beck fyrir að hrinda í bak Andra Adolphssonar. Kristinn Freyr Sigurðsson tvöfaldaði síðan forystu Vals með glæsilegu marki með góðu skoti í fjærhornið eftir góðan einleik og niðurstaðan 2:0 sigur Vals.   

til baka