sun. 28. ágú. 2016 20:57
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur.
„Þú getur farið með te handa honum“

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvík, var þokkalega sáttur við frammistöðuna gegn FH þrátt fyrir 2:0 tap á heimavelli í kvöld.

„Við áttum ágætis leik á móti mjög góðu liði. Það var sérstaklega slæmt að fá mark á sig úr hornspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Það er mjög erfitt á móti FH að koma út í seinni hálfleik 1:0 undir.“

FH-ingar virtust vera búnir að kortleggja hinn lágvaxna markvörð Víkinga, Cristian Martinez, og skoruðu bæði mörkin eftir hornspyrnur.

„Það getur vel verið. Við áttum klárlega að gera betur í hornunum. Mér finnst FH-ingar bara hafa þessi gæði og þeir kunna að klára leiki og svona færi sem þeir fá.“

Framherjinn Pape Mamadou Faye var ekki í leikmannahópi Ólsara í kvöld og Ejub var með skýringarnar klárar.

„Hann er veikur. Hann er búinn að vera veikur alla vikuna. Hann er örugglega bara heima veikur, þú getur farið með te handa honum.“

Fjölnir jafnaði á lokasekúndum leiksins gegn Fylki, sem þýðir að Ólsarar eru fjórum stigum frá fallsæti, en Fylkir og Víkingur mætast í næstu umferð. Ejub segist lítið vera að spá í hvernig aðrir leikir fara.

„Veistu, í alvöru talað er ég bara að hugsa um mitt eigið lið og að safna stigum. Vonandi tekst það og vonadi höldum við Víkingi uppi í efstu deild.“

til baka