mán. 29. ágú. 2016 10:07
Guðlaug Edda fagnar um helgina.
Norðurlandameistari í sprettþraut

Guðlaug Edda Hannesdóttir varð um helgina Norðurlandameistari í flokki kvenna undir 23 ára í sprettþraut (750 m sund, 20 km hjól og 5 km hlaup).

Mótið, Fredericia ETU Nordic Triathlon Championship, var haldið í Fredericia í Danmörku, á laugardag. Sigurvegari í kvennaflokki var sænska þríþrautarkonan Amanda Bohlin á tímanum 1 klst. 6 mín og 28 sekúndur.

Guðlaug Edda varð í 8. sæti af öllum konum á tímanum 1 klst. 11 mín og 31 sek. sem er glæsilegur árangur og fyrst í flokki ungmenna 23 ára og yngri.

Guðlaug Edda er félagi  í Þríþrautardeild Ægis, en mun æfa þríþraut í vetur með danska unglingalandsliðinu samhliða námi í SydDansk University.

Þríþrautarsamband Íslands er virkilega stolt af þessum glæsilega árangri Guðlaugar Eddu sem er 22 ára gömul og það eru einungis tvö ár síðan hún keppti í fyrsta skipti í þríþraut en Guðlaug Edda æfði um langt skeið sund með Breiðablik og Ægi og æfði einnig brautarhlaup.

til baka