þri. 27. sept. 2016 09:40
Mist Edvardsdóttir á ferðinni í leik gegn Þór/KA fyrir skömmu.
„Hún er alveg grjóthörð“

Mist Edvardsdóttir skoraði tvö marka Vals þegar liðið vann Selfoss 3:1 á útivelli í 17. og næstsíðustu umferð Pepsideildarinnar í knattspyrnu. Hún hefur gegnt mikilvægu hlutverki í liði Vals undanfarin ár, jafnvel þegar hún glímdi við krabbamein árið 2014. Þessi 25 ára gamla knattspyrnukona úr Mosfellsbæ, sem á að baki 13 A-landsleiki, er sá leikmaður sem Morgunblaðið varpar ljósi á eftir 17. umferð.

„Hún er alveg grjóthörð, mjög góður skallamaður, og það er frábært að vera með henni á miðjunni. Hún berst alltaf fyrir félaga sinn,“ segir Laufey Björnsdóttir, samherji Mistar hjá Val síðustu ár. „Hún er virkilega góður karakter. Þetta er oft sagt, en hún er það svo sannarlega. Hún er algjör liðsmaður – fórnar sér fyrir allt liðið og öskrar leikmenn áfram,“ bætir Laufey við.

Mist hefur aðallega leikið sem miðvörður, meðal annars með landsliðinu eins og fyrr segir, en í sumar hefur hún verið í hlutverki aftasta miðjumanns hjá Val: „Hún er mjög flott þar og gott að hafa hana þarna fyrir aftan sig,“ segir Laufey.

Mist lék sína fyrstu meistaraflokksleiki í 1. deild með Aftureldingu árið 2007, þá 16 ára gömul, og skoraði 6 mörk í 12 leikjum. Hún lék svo með Aftureldingu eitt ár í efstu deild áður en hún fór til KR þar sem hún lék í tvö sumur. Mist hefur leikið með Val frá árinu 2011.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

til baka