þri. 27. sept. 2016 09:11
Mark Clattenburg ræðir við Wayne Rooney í leik Manchester United og Manchester City fyrr í þessum mánuði.
Úrslitaleikjadómarinn á Laugardalsvöll

Enski knattspyrnudómarinn Mark Clattenburg, sem þykir einn albesti dómari heims, mun dæma leik Íslands og Tyrklands á Laugardalsvelli 9. október.

Þetta kemur fram á vef tyrkneska knattspyrnusambandsins. Ísland og Tyrkland mætast í þriðju umferð undankeppni HM en þremur dögum áður tekur Ísland á móti Finnlandi.

Clattenburg er 41 árs gamall. Hann dæmdi úrslitaleik EM í Frakklandi í sumar, á milli Portúgals og Frakklands, sem og úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor þar sem Real og Atlético Madrid mættust.

Clattenburg hefur dæmt fjölda annarra stórleikja og hann verður með flautuna í kvöld þegar Dortmund og Real Madrid mætast í Meistaradeild Evrópu.

Clattenburg var fjórði dómari á leik Íslands og Austurríkis á EM í sumar, þegar Ísland vann 2:1-sigur.

til baka