fös. 21. okt. 2016 19:47
Arnór með Skúla nýmerktan við Egilstaðaflugvöll í júlí síðastliðinn.
Grágæsin Skúli farin til Skotlands

Arnór Þór Sigfússon hjá Verkfræðistofunni Verkís merkti grágæsastegginn Skúla þann 21. júlí síðastliðinn með GPS/GSM sendi og hefur fylgst grannt með ferðum hans síðan. Var Skúli handsamaður við Egilsstaðaflugvell ásamt átta ungum og fimm fullorðnum gæsum og í ljós hefur komið að hann hélt af landi brott þann 18. október síðastliðinn.

Fram kemur hjá Arnóri á heimasíðu Verkís að eftir að Skúli hafði haldið til á Egilsstöðum, mest nærri bökkum Lagarfljóts í sumar, þá lagði Skúli land undir fót í núna vikunni.  Á þriðjudagskvöldið klukkan 21:00 var hann í Flutningshöfðavík, sunnan Egilsstaða. 

Það var svo einhvertíma eftir það sem hann leggur af stað í farflug suður á bóginn því þremur klukkutímum seinna er hann staddur um 24 kílómetrum suðvestur af mynni Reyðarfjarðar.  Eftir það flaug hann um 336 kílómetra á innan við 6 klukkustundum og virðist hann hvílast um stund á sjónum því hann er enn nærri þeim stað þrem klukkutímum seinna.  Þá er hann kominn á loft um kl 06:00 og heldur sem leið liggur í átt að Skotlandi. 

Tólf klukkutímum síðar virðist Skúli stoppa á ný vestur af Orkneyjum og heldur þar kyrru fyrir í um sex klukkustundir.  Þá leggur hann af stað á nýjan leik og flýgur í austur til Orkneyja og þegar hann kemur á sundið milli Mainland Orkney og eyjunnar Hoy um klukkan 06:00 þá tekur hann 90° beygju til norðurs og lendir á akri sunnan við vatn sem nefnist Loch Clumly þar sem næst spyrst til hans um klukkan 09:00 í gær. 

Fram kemur hjá Arnóri að þetta sé um 1.800 kílómetra ferðalag ef farin er stysta leið og ferðin til Orkneyja tekur innan við 33 klukkutíma sem þýðir að meðalhraðinn hefur verið um 55 kílómetrar á klukkustund.

Nánar má kynna sér þessa ferðasögu Skúla hér.

til baka