mán. 24. okt. 2016 23:11
 Ada Hegerberg stekkur hæst í landsleik með Noregi í haust.
Sú besta fékk heilahristing

Knattspyrnukona ársins í Evrópu 2015-16, Ada Hegerberg frá Noregi, þurfti að fara af velli í kvöld eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg í vináttulandsleik Norðmanna gegn Svíum í Kristiansund.

Hegerberg og Magdalena Eriksson, leikmaður Svíþjóðar, skölluðu harkalega saman skömmu fyrir leikslok. Hegerberg var studd af velli en þar hneig hún niður og var flutt inn í búningsklefa til meðhöndlunar.

Læknir norska landsliðsins sagði við VG að hún hefði fengið heilahristing og skurð á höfuðið, þar sem saumuð hefðu verið 4-5 spor. Sem betur fer hefði ekki liðið alveg yfir hana, hún hefði verið með meðvitund allan tímann, en hefði fengið fyrirmæli um algjöra hvíld næstu dagana.

Hegerberg var bannað að ræða við fjölmiðla eftir leikinn, sem endaði með markalausu jafntefli. Hún leikur með Evrópumeisturum Lyon og missir væntanlega af næstu leikjum liðsins í deild og jafnvel í Meistaradeildinni. Hegerberg skoraði 54 mörk í 35 leikjum fyrir Lyon á síðasta tímabili.

til baka