fim. 8. des. 2016 21:00
Úr leik Grindavíkur og Tindastóls í kvöld. Grindvíkingar sækja að körfunni.
Góður sigur Tindastóls - létt hjá KR

KR heldur toppsætinu í Dominos-deild karla í körfubolta eftir að hafa unnið Snæfell 108:74 í tíundu umferð deildarinnar í kvöld. Tindastóll vann þá Grindavík 87:80 í hörkuleik í Röstinni í Grindavík.

Grindavík 80:87 Tindastóll
KR 108:74 Snæfell

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is

Leikjunum er lokið.

40. Staðan er 80:87 fyrir Tindastól. Eftir nokkuð magnaðan og hraðan fjórða leikhluta voru það Tindastólsmenn sem sigruðu að lokum í Mustadhöll þeirra Grindvíkinga. Gestirnir úr Skagafirðinum spiluðu yfirvegað og voru að hitta vel á lokakaflanum. Chris Caird átti stóran þátt í þessum fyrsta tapleik Grindvíkinga á heimavelli í vetur.

Tindastólsmenn gerðu góða ferð í Grindavík í kvöld og sigruðu þar heimamenn með 87 stigum gegn 80. Grindvíkingar leiddu með 8 stigum í hálfleik en í þeim seinni voru Tindastólsmenn sterkari og spiluðu skynsamlegan bolta dyggilega studdir af fjölmörgum stuðningsmönnum sínum. Tindastóll hafa nú sigrað 5 leiki í röð í deildinni og eru ósigraðir undir stjórn Israel Martin.

40. Staðan er 108:74 fyrir KR. KR-ingar fara með sigur af hólmi í DHL-höllinni. Brynjar Þór stigahæstur með 24 stig en Sefton Barrett kom næstur með 20 stig. Snæfell er enn án sigurs en KR er áfram á toppnum, nú með átta sigra og tvö töp.

30. Staðan er 67:64 fyrir Tindastól. Gestirnir úr Skagafirðinum hafa hægt en örygglega nagað niður forskot Grindvíkinga  og er svo komið að það eru Tindastólsmenn sem leiða leikinn með þremur stigum. Antonio Hester hefur verið líkt og díselmótor hér, seinn í gang en nú vinnur hann á öllum, orðinn sjóðheitur og er illviðráðanlegur fyrir Grindvíkinga.  Helstu munar hinsvegar varnarleikur Tindastóls sem hefur þétt sínar raðir vel. Grindvíkingar virðast hálf frosnir í sínum aðgerðum og þurfa að lífga uppá hugmyndaflugið í sínum leik.

30. Staðan er 80:54 fyrir KR. Heimamenn að loka þessum leik eftir þrjá leikhluta. Snæfell er ekki að fara koma til baka úr þessu og tíunda tap þeirra á leiðinni.

20. Staðan er 58:40 fyrir KR. KR-ingar eru komnir með góða átján stiga forystu. Brynjar Þór og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson atkvæðamiklir hjá heimamönnum. Sefton Barrett er með 10 stig og 10 fráköst fyrir Snæfellinga.

20. Staðan er 49:41 fyrir Grindavík. Eins og þruma úr heiðskýru hefur Þorsteinn Finnbogason framherji Grindvíkinga smellt niður þremur þristum í röð fyrir heimamenn í leikhlutanum. En leikurinn er að þróast í þá átt að jafnast þ.e. aðeins munaði tveimur stigum á liðunum í þessum fjórðung sem fór 20:22 gestina í vil.  Erlendur leikmaður þeirra Tindastólsmanna hefur verið óheppinn með sín færi en þó lítur leikur þeirra norðanmanna töluvert betur út en í fyrsta fjórðung.  Heimamenn hinsvegar sterkir í sínu heimavígi og ef um verður að ræða leik sem ræðst á síðustu metrunum eru Grindvíkingar drekkhlaðnir reynslu í þeim efnum. Staðan er 49:41 eftir 20 mínútna leik.

10. Staðan er 29:19 fyrir Grindavík. Óhætt að segja að talan 10 kemur mikið við sögu hér í upphafi leiks. Grindvíkingar hafa verið að skjóta boltanum feikilega vel hér í upphafi leiks og skorað 29 stig í fyrsta leikhluta.  Grindavík skoruðu fyrstu 10 stig leiksins en Chris Caird leikmanni Tindastóls fannst það frekar ójafnt og skoraði fyrstu 10 stig Tindastóls og hélt gestunum við efnið.  Leikurinn rétt að hefjast en heimamenn leiða með 10 stigum.

10. Staðan er 31:21 fyrir KR. KR-ingar í ágætis málum eftir fyrsta leikhluta. Tíu stiga munur og Brynjar Þór Björnsson með 15 stig, takk fyrir!

1. Leikirnir eru farnir af stað.

0. Lýsingin verður uppfærð jafnóðum.

til baka