fim. 8. des. 2016 20:53
Jeremy Atkinson með boltann í kvöld. Kristinn Marinósson reynir að verjast.
Annar sigur ÍR í röð

ÍR lagði Njarðvík að velli, 92:73, er liðin mættust í 10. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld en leikið var í Seljaskóla. Þetta var fjórði sigur ÍR-inga á tímabilinu og þá annar sigurinn í röð.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en eftir því sem leið á 1. leikhluta náði ÍR yfirhöndinni. Þeir gerðu ansi vel í að halda lykilmönnum Njarðvíkinga niðri á meðan þeir voru ágætir í sókninni.

Staðan eftir 1. leikhluta var 17:11 ÍR í vil. Sama saga var í 2. leikhluta. ÍR-ingar héldu frumkvæðinu og voru ávallt skrefi eða tveim á undan. Staðan í hálfleik var 46:33.

Quincy Cole var að spila manna best í fyrri hálfleik en hann var kominn með 19 stig að honum loknum. ÍR-ingar komu mikið mun betur inn í seinni hálfleik og náðu fljótlega 19 stiga mun í stöðunni 63:44. Munurinn var svo 18 stig þegar 4. leiklhluti fór af stað, staðan 75:57 og þurfti Njarðvík í raun kraftaverk til að bjarga leiknum úr því sem komið var.

Njarðvíkingar reyndu allt hvað þeir gátu í 4. leikhluta en sem fyrr gekk lítið upp. Þetta var einfaldlega alls ekki þeirra dagur og ÍR-ingar gengu á lagið. Quincy Cole var stigahæstur með 32 stig. Jeremy Atkinson skoraði mest Njarðvíkinga eða 21 stig.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið. 

40. Staðan er 92:73 fyrir ÍR. Algjörlega verðskuldaður sigur ÍR. Annar sigur þeirra í röð og eru þeir nú komnir upp að hlið Njarðvíkinga með átta stig. 

35. Staðan er 81:65 fyrir ÍR. Njarðvíkíngar eru búnir að minnka muninn örlítið en það þarf meira til. ÍR virðist ætla að sigla þessu nokkuð þægilega heim. 

30. Staðan er 75:57 fyrir ÍR. Það þarf eitthvað svakalegt að gerast til að ÍR vinni ekki þennan leik. Þeir eru fremri á öllum sviðum körfuboltans og þetta forskot er algjörlega verðskuldað. 

25. Staðan er 63:44 fyrir ÍR. ÍR-ingar fara mikið betur af stað í seinni hálfleik og er munurinn orðinn 19 stig. Þeir eru að spila hörku vörn á meðan sóknarleikurinn gengur vel. Það er ekki sjón að sjá Njarðvíkurliðið sem getur svo mikið, mikið betur. 

20. Staðan er 46:33 fyrir ÍR. ÍR hefur 13 stiga forskot í hálfleik. Njarðvíkingar eru langt frá sínu besta og eiga mikið inni. Það hefur ÍR nýtt sér vel og eru að spila fínan leik og þá sérstaklega títtnefndur Quincy Cole sem lítur vel út. Hann er kominn með 19 stig en Jón Arnór Sverrisson er með 12 hjá Njarðvík. 

15. Staðan er 28:18 fyrir ÍR. ÍR-ingar halda frumkvæðinu í 2. leikhluta. Þeir eru að halda lykilmönnum Njarðvíkur niðri og á sama tíma að sýna ágætis tilþrif í sóknarleiknum. Quincy Cole heldur áfram að gera vel og er hann kominn með 13 stig. Logi Gunnarsson er loksins kominn með sín fyrstu stig en hann setti niður þrjú víti rétt í þessu. 

10. Staðan er 17:11 fyrir ÍR. ÍR-ingar klára 1. leikhluta betur og skora síðustu sex stigin. Það eru einungis tveir leikmenn Njarðvíkur búnir að skora í þessum leik. Quincy Cole, nýr bandarískur leikmaður ÍR er stigahæstur með tíu stig. 

7. Staðan er 11:11. Njarðvíkingar eru fljótir að svara með góðum kafla og eru þeir búnir að jafna í 11:11. Logi Gunnars og Jeremy Atkinson eiga enn eftir að komast á blað hjá gestunum. Jón Arnór Sverrisson hefur verið atkvæðamestur þeirra hingað til með sjö stig. Quincy Cole er með fjögur hjá ÍR. 

4. Staðan er 9:2 fyrir ÍR.  Heimamenn byrja leikinn töluvert betur og eru komnir í 9:2. Sóknarleikur Njarðvíkinga hefur verið afleitur í upphafi leiks ásamt því að ÍR-ingar hafa verið töluvert grimmari í fráköstum. 

1. Leikurinn er hafinn.

0. Gott kvöld. Verið velkomin með okkur í Seljaskóla þar sem ÍR og Njarðvík mætast í Dominos deild karla í körfubolta.

Fyrir leikinn eru heimamenn í ÍR í basli og í næstneðsta sæti með sex stig eftir níu leiki. Njarðvík er 6. sæti en þó aðeins með tveim stigum meira en ÍR-ingar. Það má því búast við spennandi leik. 

0. Lýsingin verður uppfærð jafnóðum.

til baka