fim. 8. des. 2016 21:13
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV.
„Ungu strákarnir mjög flottir“

Eyjamenn unnu sinn annan sigur í röð í kvöld þegar liðið sigraði Gróttumenn. Leiknum lauk með fimm marka sigri liðsins en munurinn hefði getað verið mun meiri. Arnar Pétursson var virkilega sáttur með leik liðsins og var glaður þegar ég spjallaði við hann eftir leik.

„Ég er mjög sáttur við spilamennskuna í dag, hvernig við komum inn í þetta og hvernig við nálguðumst þetta verkefni.“

ÍBV hefur spilað virkilega góðan varnarleik í síðustu þremur leikjum, gegn FH, Stjörnunni og nú Gróttu. Er þetta eitthvað sem Arnar og félagar eru búnir að vinna vel í?

„Já við höfum hægt og rólega bætt hann, það er rétt hjá þér að síðustu þrír leikir hafa verið mjög sterkir varnarlega. Kolli er búinn að vera góður í markinu og það er grunnurinn að því að ná í stig, að spila vel þar. Við höfum hikstað sóknarlega en það er eðlilegt miðað við allt saman,“ sagði Arnar en Kolbeinn Aron Arnarsson hefur verið virkilega góður milli stanganna upp á síðkastið.

Var þessi markvarsla Kolbeins eitthvað sem liðið hafði vantað til að fá sjálfstraust í varnarleikinn?

„Þetta helst auðvitað allt í hendur, góð vörn og sjálfstraust bæði í vörn og markvörslu. Um leið og menn þétta sig aðeins og við skerpum á þessum vinnureglum sem við viljum hafa þá auðveldar það Kolla vinnuna og hann er búinn að svara okkur frábærlega. Hann er búinn að spila eins og kóngur í síðustu leikjum.“

Sigurbergur Sveinsson hefur lítið æft síðustu þrjár vikur þar sem hann hefur verið tæpur á meiðslum. Hann átti þó hörkufínan leik í dag þar sem hann skoraði átta mörk.

„Beggi hefur ekki æft af neinum krafti síðustu þrjár vikur, hann er gæðaleikmaður og vildi spila þennan leik og lagði sig 100% fram. Við náðum að hvíla hann aðeins varnarlega og nýttum okkur það, hann gaf okkur nokkur góð mörk í seinni hálfleik.“

Gróttumenn byrjuðu leikinn vel og voru á kafla þremur mörkum yfir, eftir að Eyjamenn jöfnuðu leikinn virtust þeir þó aldrei ætla að missa forystuna.

„Við vorum ekki að spila illa í byrjun, við vorum að fá færi. Þeir voru að skora nokkur mörk í byrjun þar sem höndin var komin upp. Ég hafði engar áhyggjur ef ég á að vera alveg hreinskilinn, mér fannst við vera að spila vel og var nokkur veginn sannfærður um að þetta myndi fara að detta og við kláruðum þetta vel.“

ÍBV var með sex leikmenn úr 3. flokki liðsins á skýrslu í dag, tveir af þeim byrjuðu leikinn og spiluðu nánast allar mínúturnar, sá þriðji lék stóran hluta og síðustu þrír fengu síðustu mínúturnar.

„Ég er mjög sáttur við það, þessir ungu strákar eru mjög flottir og á tímabili vorum við með þrjá 3. flokks stráka inni á vellinum, í fyrri hálfleik. Þeir skiluðu sínu hlutverki frábærlega og voru vel studdir af gömlum refum sem taka þeim fagnandi.“

Theodór Sigurbjörnsson, markahæsti leikmaður deildarinnar, meiddist undir lok leiksins, hvað gerðist þar?

„Það er það neikvæðasta við leikinn. Eftir frábæran leik og mikla skemmtun meiðist Teddi aftan í læri og tognar, við vitum að það getur tekið langan tíma að eiga við það. Ég vona það besta og vona að þetta sé ekki alvarlegt.“

Nokkra leikmenn vantar enn í lið ÍBV þar sem Dagur Arnarsson er meiddur auk Róberts Arons Hostert, Loga Snædal Jónssonar og Sindra Haraldssonar. Þá er Stephen Nielsen einnig væntanlegur fyrir lok þessa árs.

„Stephen kemur rétt fyrir jól, hann ætlar að eyða jólunum í Vestmannaeyjum í paradísinni sinni, hann kallar þetta orðið paradís og hann mun koma fyrir jól. Robbi og Logi eru komnir á fullt og eru að æfa virkilega vel, þeir líta vel út. Sindri þarf aðeins lengri tíma og verða allir tilbúnir eftir áramót vona ég.“

Býst Arnar við því að vera með sterkari hóp eftir áramót?

„Þetta skilar okkur vonandi einhverju eftir áramót í sterkari hóp. Ungu strákarnir sem hafa verið að spila hafa fengið mikla reynslu og skila góðu verki. Þegar að hinir koma inn þá labba þeir ekki inn í eitt eða neitt. Þeir þurfa að hafa fyrir þessu og sanna sig, það er alveg pottþétt.“

Nú er deildarbikarinn á næsta leyti, er það eitthvað sem Arnar og hans strákar hafa áhuga á að taka þátt í?

„Auðvitað viljum við komast þangað,“ sagði Arnar brosandi að lokum.

til baka