fim. 8. des. 2016 21:35
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og félagar í Fram unnu langþráðan sigur í kvöld.
Þetta var bara veisla fyrir okkur

„Það var mjög mikilvægt að ná þessum sigri. Við viljum klára þetta almennilega fyrir jól,“ sagði Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, sem líkt og fleiri Framarar átti mjög góðan leik í sigrinum á Val í kvöld, 30:23, í Olís-deild karla í handbolta.

Fram hafði tapað fimm síðustu leikjum sínum í deildinni en var með frumkvæðið nær allan leikinn í kvöld og vann sannfærandi sigur.

Frétt mbl.is: Fram rauf taphrinuna með stæl

„Við höfum ekki verið að mæta almennilega til leiks í þessum leikjum, nema núna síðast gegn Haukum. Þá fengum við aftur baráttu í liðið og reyndum að byggja ofan á það í dag, eins og sást. Það var alvörubarátta í liðinu og þá getum við náð góðum úrslitum,“ sagði Þorsteinn Gauti, ánægður með hve margir lögðu hönd á plóg í sigrinum:

Guðjón Andri 100% og Daníel sjóðheitur

„Menn voru að koma frábærir inn af bekknum eins og Guðjón Andri [Jónsson] sem átti 100% leik, fiskaði tvisvar sinnum ruðning og nýtti öll sín færi, og Danni [Daníel Þór Guðmundsson] í markinu sem var búinn að vera sjóðheitur á æfingum og lokaði rammanum. Lúðvík [Thorberg Arnkelsson], sem hefur kannski ekki farið mikið fyrir, átti líka geggjaðan leik. Hann er bara ´97-módel en hefur verið að koma hægt og rólega inn í þetta hjá okkur í síðustu leikjum og í kvöld sýndi hann virkilega hvað hann getur.  Það voru allir að skila sínu,“ sagði Þorsteinn Gauti.

Arnar Birkir Hálfdánsson var markahæstur hjá Fram með 8 mörk, en hann var tekinn úr umferð fljótlega í seinni hálfleik. Þá tóku Þorsteinn Gauti og Lúðvík við keflinu, ásamt fleirum.

„Þetta var bara veisla fyrir okkur. Þetta er eiginlega alltaf svona, þegar við erum að vinna í leikjum, að andstæðingarnir taka Arnar Birki úr umferð. Það var flott að ná að klára dæmið þrátt fyrir það. Við sýndum að þegar við mætum í leiki með 100% baráttu þá getum við verið helvíti góðir,“ sagði Þorsteinn Gauti.

til baka