fim. 8. des. 2016 21:42
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Ekki bara lélegir heldur andlausir

„Ég veit ekki hvers lags leikur þetta var hjá okkur í síðari hálfleik en það er þó ljóst að liðið hefur ekki leikið verr í vetur en það gerði í síðari hálfleik að þessu sinni,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 12 marka tap fyrir Aftureldingu, 29:17, í Olís-deild karla að Varmá í kvöld.

Stjörnuliðið var ekki með í síðari hálfleik og skoraði til að mynda aðeins fjögur mörk á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks eftir að hafa verið aðeins tveimur mörkum undir í hálfleik, 13:11.

„Við vorum ekki bara lélegir heldur hreinlega andlausir sem er algjörlega óafsakanlegt,“ sagði Einar og var eðlilega afar óhress með sína menn sem voru hreinlega eins og vinnustaðalið á köflum í síðari hálfleik.

„Mér fannst við vera ágætir í fyrri hálfleik og eiga jafnvel eitthvað inni. Ég var þar af leiðandi þokkalega bjartsýnn þegar síðari hálfleikur hófst. Það sem tók við hjá okkur var eitthvað sem ég átti alls ekki von á,“ sagði Einar.

Eftir leiki kvöldsins er Stjörnuliðið eitt á botni deildarinnar, tveimur stigum á eftir Akureyri, Fram og Gróttu sem hafa 11 stig hvert. „Útlitið er kannski ekki gott þegar horft er á stöðutöfluna en við eigum mikið inn og eigum bara eftir að verða betri. En til þess verðum við að leggja harðar að okkur og vera duglegir við að koma okkur í betri stöðu. Það er ljóst,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir tapið stóra að Varmá í kvöld.

til baka