mán. 16. jan. 2017 07:13
Björgvin Björgvinsson tók fram keppnisskíðin um helgina.
Vildi sýna strákunum hvernig á að gera þetta

Það vakti athygli blaðamanns þegar skoðuð voru úrslit á alþjóðlegu svigmóti sem fram fór á Dalvík á laugardag að gamli refurinn Björgvin Björgvinsson var á skrá. Og raunar gott betur en það, því þessi einn okkar albesti alpagreinaskíðamaður frá upphafi sigraði í báðum svigmótunum. Sama var uppi á teningnum hjá Kötlu Björgu Dagbjartsdóttur í kvennaflokki.

Þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til Björgvins í gær kom svo ekki á óvart að kappinn væri staddur á skíðasvæðinu á Dalvík. „Ég get alveg viðurkennt það að ég er með mikið af strengjum skal ég segja þér,“ sagði Björgvin hinn hressasti, en hann er 37 ára gamall og hætti formlega keppni árið 2011. Björgvin á að baki þrenna vetrarólympíuleika, 48 heimsbikarmót og 102 Evrópumót. Hann varð heimsmeistari unglinga í stórsvigi árið 1998, þá átján ára, og á 31 Íslandsmeistaratitil í safninu. En lengi lifir í gömlum glæðum.

„Ég þekki brekkurnar mjög vel hérna, það vantar ekki. Það er bara spurningin um að reyna að skíða sig aðeins inn. Hausinn er alveg í lagi, en hitt er aðeins hægara,“ sagði Björgvin og gat ekki neitað því að hann væri aðeins farinn að ryðga – þó væri ekki nema örlítið.

Rætt er við Björgvin í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

til baka