mán. 16. jan. 2017 10:00
Guðmundur Guðmundsson, djúpt hugsi.
Guðmundur missir öflugan leikmann

Guðmundur Guðmundsson mun ekki geta nýtt krafta skyttunnar Mads Mensah í kvöld á heimsmeistaramótinu í handbolta í Frakklandi eftir að hann meiddist í upphitun fyrir leikinn við Egypta á laugardag.

Mensah tognaði í magavöðva og því neyddist Guðmundur til að skipta kappanum út. Í staðinn kallaði þjálfarinn á Niclas Kirkelökke úr GOG, og verður hann í hópnum gegn Svíum í toppslag D-riðils í kvöld kl. 19.45.

„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að Mads Mensah verði að fá hvíld og þess vegna ákváðum við að fá Niclas Kirkelökke til leiks,“ sagði Guðmundur, sem heldur þó í vonina um að Mensah spili meira á mótinu og verður hann áfram í herbúðum danska landsliðsins.

Kirkelökke er mættur á sitt fyrsta stórmót með A-landsliði Dana, en á árunum 2011-2014 lék hann 52 landsleiki með yngri landsliðum og skoraði 195 mörk. Þessi örvhenta skytta þótti standa sig vel á æfingamótinu í Danmörku fyrr í þessum mánuði, í leikjum gegn Íslandi og Egyptalandi, en hann getur einnig leikið sem hornamaður.

Leikstjórnandinn Morten Olsen meiddist í leiknum á laugardaginn en vonir standa til þess að hann geti spilað í kvöld.

til baka