lau. 25. feb. 2017 16:42
Gylfi Þór Sigurðsson með boltann í leiknum í dag.
Gylfi lagði upp í tapi á Brúnni

Gylfi Þór Sigurðsson lagði upp sitt níunda mark í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á leiktíðinni er Swansea tapaði 3:1 gegn toppliði Chelsea í leik liðanna í rigningarslag á Stamford Bridge. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Gylfi er þar með orðinn stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 9 stoðsendingar talsins, jafn margar og Belginn Kevin de Bruyne hjá Manchester City. Gylfi er enn fremur búinn að skora átta mörk og því hefur hann komið að 17 mörkum af 32 mörkum Swansea í úrvalsdeildinni, 53% markanna.

Chelsea var miklu sterkara liðið í fyrri hálfleiknum og komst verðskuldað yfir á 19. mínútu eftir að þröngt spil þeirra bar árangur og Spánverjinn Cesc Fábregas, sem kom inn í byrjunarliðið hjá Chelsea kom knettinum í netið.

En ef lið hafa Gylfa Þór Sigurðsson innanborðs þá eru föst leikatriði alltaf hálfgerð dauðafæri og það sannaðist á lokaandartökur fyrri hálfleiks er Gylfi Þór stillti upp knettinum rétt við miðju, beint á kollinn á Fernando Llorente, framherjanum stóra og stæðilega, sem skallaði boltann í netið, 1:1 í hálfleik.

Í síðari hálfleik hélt Chelsea áfram uppteknum hætti og hélt boltanum meira en Gylfi og félagar sýndu þó klærnar inn á milli. Á 69. mínútu vildi Gylfi Þór fá vítaspyrnu eftir að hann lék listir sínar með boltann innan teigs og setti í hönd César Azpilicueta, bakvarðar Chelsea, en fékk ekkert fyrir sinn snúð.

Aðeins þremur mínútum síðar kom Spánverjinn Pedro Chelsea í 2:1 eftir slæm mistök hjá Lukasz Fabianski í marki Swansea, en skotið hjá Pedro var laust en Fabianski missti boltann undir sig er hann skutlaði sér til hægri.

Á 83. mínútu fíflaði Edin Hazard varnarmenn Swansea og lagði boltann á Diego Costa sem skoraði þriðja mark Chelsea og innsiglaði 3:1 sigur toppliðsins sem er nú með 11 stiga forskot á toppi deildarinnar.

Swansea hefur 24 stig í 15. sæti og er aðeins þremur stigum frá fallsæti.

90. Leik lokið.

83. MARK! Edin Hazard fíflar varnarmenn Swansea, leggur boltann inn á teig þar sem Diego Costa beið og þrumaði knettinum viðstöðulaust í netið. Staðan 3:1. Lítur alls ekki vel út fyrir Swansea. Væntanlega búið bara. 

76. Gylfi Þór átti aukaspyrnu á hættulegum stað en skotið beint á Courtois í markinu hjá Chelsea. Skipting hjá Chelsea, Matic kemur inn fyrir Pedro. Nú á að halda fengnum hlut.

 

72. MARK! Pedro kemur Chelsea í 2:1. Laflaust skot fyrir utan teig með vinstri frá Pedro en Fabianski missir boltann undir sig er hann skutlar sér til hægri. Klaufalegt! Og Chelsea komið í 2:1.

68. Gylfi leikur listir sínar í teignum, tekur boltann með hælnum og setur auglóslega í hönd varnarmanns Chelsea, og það innan teigs, en dómarinn dæmir ekkert. Chelsea fer í næstu sók og þar fellur Costa við innan teigs, að því er virtist fyrir litlar sakir, og enn dæmdi dómarinn ekki neitt. 

52. Fábregas með skot í slá og yfir!

47. Edin Hazard í hörkufæri en Fabianski ver frábærlega!

46. Allt er til reiðu fyrir síðari hálfleikinn.

45. í þann mund er flautað til hálfleiks.

45+2 MARK!!!! Swansea að jafna metin! Gylfi með aukaspyrnu sem endar á kollinum á Llorente sem skallar boltann í netið. Þegar Gylfa fær að stilla upp, sama hvar hann er á vellinum nánast, er hætta! Ótrúlegt! Gylfi núna kominn með 9 stoðsendingar og 8 mörk á tímabilinu.

42. Pedro með frábæran sprett en varnarmenn Swansea rétt ná að bjarga. 

37. Lítið að gerast í leiknum þessa stundina. Færst ró yfir leikinn eftir markið hjá Chelsea. Höfum ekki fengið að sjá mikið af Gylfa. Það kemur að því!

19. MARK! Fábregas kemur Chelsea yfir gegn Swansea. Fær boltann í þröngri stöðu inni í teig eftir þröngt spil Chelsea sem gekk þó á endanum upp inn í teig. Kemur knettinum í gegnum klof varnamanns Swansea og boltinn lengur í netið. 1:0. 

 

13. Stórhættulegt færi hjá Swansea. Fabregas fær boltann rétt utan teigs en varnarmenn Swansea náð að fleygja sér fyrir knöttinn og bjarga á síðustu stundu.

10. Leikurinn fer rólega af stað. Chelsea heldur þó boltanum mun meira. Swansea virðist ekki vilja halda honum mikið í þessum leik.

1. Leikurinn er farinn af stað.

0. Gylfi byrjar að sjálfsögðu. Byrjunarliðin má sjá hér að neðan:

Chelsea: Courtois; Azpilicueta, David Luiz, Cahill (c); Moses, Kante, Fabregas, Alonso; Pedro, Diego Costa, Hazard.

Swansea: Fabianski; Naughton, Fernandez, Mawson, Olsson; Fer, Cork (c), Carroll; Routledge, Llorente, Sigurdsson.

0. Byrjunarliðin birtast innan skamms.

 

til baka