lau. 25. feb. 2017 17:19
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn fyrir Cardiff City í dag.
Aron Einar sá eini í byrjunarliðinu

Aron Einar Gunnarsson var eini íslenski leikmaðurinn sem hlaut náð fyrir augum þjálfara síns í byrjunarliði í ensku B-deildinni í knattspyrnu karla í dag.

Aron Einar lék allan leikinn fyrir Cardiff City í 2:2 jafntefli liðsins gegn Fulham í dag. Ragnar Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Fulham í dag, en hann er enn að jafna sig að fullu á meiðslum sem hann varð fyrir nýverið.

Birkir Bjarnason hóf leikinn á varamannabekk Aston Villa sem vann langþráðan 1:0-sigur gegn Derby County. Birkir kom síðan inn á fyrir Aston Villa á 74. mínútu leiksins og aðstoðaði liðið við að innbyrða fyrsta sigur í deildinni síðan á annan dag jóla. 

Aston Villa hafði fyrir sigurinn í dag leikið níu leiki í röð án þess að bera sigur úr býtum og hefur sogast hægt og bítandi í fallbaráttu deildarinnar. 

Hörður Björgvin Magnússon og félagar hans hjá Bristol City fóru illa að ráði sínu í leik liðsins gegn Newcastle United sem trónir á toppi deildarinnar. Bristol City komst í 2:0 í fyrri hálfleik, en glutraði niður forystunni í seinni hálfleik og niðurstaðan varð 2:2-jafntefli.  

Hörður Björgvin sem hefur verið mikið úti í kuldanum hjá Bristol City undanfarið hóf leikinn á varamannabekk Bristol City, en kom síðan inn á sem varamaður hjá Bristol City á 71. mínútu leiksins.

Fulham er í sjöunda sæti deildarinnar með 53 stig, Cardiff City er í 12. sæti deildarinnar með 46 stig. Aston Villa komst í seilingafjarlægð frá fallsvæði deildarinnar með sigri sínum í dag, en liðið er í 17. sæti deildarinnar með 39 stig og er átta stigum frá fallsæti. 

Bristol City er hins vegar í bullandi fallbaráttu, en liðið situr í 21. sæti deildarinnar með 33 stig og er einungis tveimur stigum frá fallsæti. 

til baka