lau. 25. feb. 2017 18:23
Einar Andri Einarsson og Daði Hafþórsson, þjálfarar Aftureldingar.
Hver mistök eru dýr

„Fyrst og fremst eru þessi úrslit svekkjandi,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir að lið hans tapaði, 26:22, fyrir Val í úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik karla í Laugardalshöll í kvöld. Leikurinn var jafn lengst af en Valsmenn voru sterkari á síðustu mínútunum og tryggðu sér bikarinn annað árið í röð.

„Þetta var jafn leikur. Við vorum aðeins yfir í síðari hálfleik en þeir komust yfir í þeim síðari. Litlu atriðin réðu úrslitum þegar upp var staðið. Hver mistök eru dýr í svona leikjum,“ sagði Einar Andri.

„Það er hugsanlega skýring að leikurinn við Hauka í undanúrslitum hafi setið í okkur þegar kom fram í lokin á leiknum. Valsmenn léku einnig erfiðan leik í gær,“ sagði Einar Andri spurður hvort framlengdur undanúrslitaleikur við Hauka í gærkvöldi hafi setið í leikmönnum hans þegar kom fram á síðustu mínútur úrslitaleiksins við Val í dag.

„Markið sem Josip skoraði og kom Val yfir, 21:20, í þann mund sem var að koma töf á þá var afar mikilvægt fyrir þá. Valsmenn eru mjög klókir í sínum sóknarleik og fá að komast upp með að hanga mikið á boltanum,“ sagði Einar Andri enn fremur en hann hefur tekið við silfurverðlaunum tvö síðustu ár á Íslandsmótinu og fékk einnig silfur að þessu sinni í bikarkeppninni.

„Það er gaman að vera í þeirri stöðu skipti eftir skipti að vera í keppni um titlana en silfrið er orðið ansi hreint súrt,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar í samtali við mbl.is.

til baka