lau. 25. feb. 2017 18:27
Guðlaugur Arnarsson og Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfarar karlaliðs Vals í handknattleik.
Bikarinn á vel við mig

„Karakterinn í liðinu og varnarleikurinn lagði grunninn að þessum sigri,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari karlaliðs Vals, sem stýrði Hlíðarendaliðinu til sigurs í bikarkeppninni sem þjálfari í fimmta sinn í dag þegar Valsliðið vann Aftureldingu með fjögurra marka mun, 26:22, í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins í Laugardalshöllinni.

„Varnarleikurinn var aðal okkar í dag, markverðirnir náðu mikilvægum skotum auk þess sem fleiri leikmenn lögðu í púkkið í sóknarleiknum en stundum áður. Við vorum rólegir þrátt fyrir að við lentum undir. Sennilega er reynslan skýringin á því. Við höfum verið í nokkrum erfiðum leikjum síðustu dagana,“ sagði Óskar en auk jafns leiks við FH í undanúrslitum í gær léku Valsmenn tvo jafna og spennandi leiki við Partizan 1949 í Svartfjallandi um síðustu helgi í 16-liða úrslitum áskorendakeppni Evrópu.

„Leikirnir í Svartfjallandi voru góðir. Strákarnir munu búa lengi að þeim og þótt vikan hafi verið okkur erfið eftir leikina höfðu þeir góð áhrif á hópinn sem skilað okkur þessum sigri í dag,“ sagði Óskar Bjarni sem er að verða með sigursælli þjálfurum landsins þegar kemur að bikarkeppninni. „Bikarinn á vel mig. Ég þarf bara að mæta þessa helgi og fara svo í frí til vors,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, annar þjálfari Vals, glaður í bragði.

til baka