mán. 27. mars 2017 15:20
Björn Róbert Sigurðarson, fyrirliði Esju, lyftir Íslandsmeistarabikarnum á laugardag fyrir framan fagnandi liðsfélaga sína.
Gerist ekki betra en þetta

„Ég er ekki ennþá búinn að ná þessu,“ sagði Gauti Þormóðsson, þjálfari Esju, þegar Morgunblaðið greip hann tali örfáum mínútum eftir að Esja tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í íshokkí með sigri á SA eftir vítabráðabana í Laugardalnum um helgina. Staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 3:3, þar sem Esja lenti þrívegis undir.

„Þetta var rosalegur leikur og ég hélt við værum búnir að tapa honum alveg þrisvar. En við náðum að koma til baka, við höfum átt auðvelt með það í vetur en þetta var erfitt. Þeir skoruðu þrisvar sinnum manni fleiri og komust yfir í vítakeppninni, en alltaf komum við til baka. Strákarnir okkar eru bara rosalegir undir pressu,“ sagði Gauti.

Sem fyrr segir var þetta fyrsti Íslandsmeistaratitill Esju, en félagið var stofnað sumarið 2014. Skautafélag Akureyrar er hins vegar með 19 slíka á bakinu og er með reynslumestu menn íþróttarinnar hér á landi enn á fullri ferð. Esja vann hins vegar einvígið 3:0 og tapaði aðeins tveimur leikjum af 27 í allan vetur.

Við vorum að vinna stórveldi í íshokkí

„Ég verð að hrósa Akureyringunum. Við vorum að vinna stórveldi í íshokkí. Til þess að vinna þetta lið þarf alltaf ganga upp, og þó þeir hafi verið í vandræðum í ár sést hér hvernig þeir rísa upp jafnvel þó margir séu að verða fertugir. Þeir yfirspila okkur meira að segja á köflum, svo þeir geta farið stoltir heim. Það er ekkert grín að vinna þetta SA-lið, maður hefur margreynt það.“

Nánar er rætt við Gauta og fjallað um Íslandsmeistaratitil Esju í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

til baka