mán. 27. mars 2017 16:12
Björn Róbert Sigurðarson í leik með Esju í vetur.
Skarð fyrir skildi hjá Íslandi á HM

„Við reyndum að láta þetta virka en það gekk því miður ekki,“ sagði Björn Róbert Sigurðarson, leikmaður Íslandsmeistara Esju, í samtali við mbl.is en ljóst er að hann mun ekki vera með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í íshokkí sem fram fer í Rúmeníu í næstu viku.

Björn Róbert stundar nám í lögfræði við HR og prófin byrja 4. apríl, eða daginn eftir fyrsta leik á HM sem stendur yfir í Galati í Rúmeníu dagana 3.-9. apríl. Ef hann hefði tekið sjúkrapróf við heimkomu hefði hann misst réttinn á endurtökuprófi, svo svigrúmið var lítið.

„Ég vildi eiginlega ekki taka sénsinn á því. Það er einfaldlega of mikið að fara þarna og vera í prófum samhliða því,“ sagði Björn Róbert, en ljóst er að hann mun skilja eftir sig stórt skarð í sóknarleik Íslands á mótinu.

Björn Róbert skoraði 30 mörk í 27 leikjum með Esju í vetur og lagði upp önnur 26, en enginn leikmaður Íslandsmótsins var jafnmarksækinn. Á HM fyrir tveimur árum sem haldið var hér á landi var hann kosinn besti sóknarmaður mótsins.

„Auðvitað langar mig að komast með, en skólinn skiptir mig miklu máli og það er alltaf næsta ár,“ sagði Björn Róbert, sem mun því þurfa að fylgjast með íslenska liðinu úr fjarska. „Já, því miður. Eins leiðinlegt og það er,“ sagði Björn Róbert Sigurðarson við mbl.is.

til baka