mán. 27. mars 2017 21:00
Ragna Margrét Brynjarsdóttir og stöllur í Stjörnunni hafa unnið Snæfell einu sinni í vetur.
Stór stund í sögu Stjörnunnar

„Þetta er svolítið stór stund í sögu félagsins,“ sagði Ragna Margrét Brynjarsdóttir, miðherji Stjörnunnar, en liðið leikur í fyrsta sinn í úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfubolta annað kvöld.

Stjarnan sækir Snæfell heim í Stykkishólm og þessi fyrsti leikur í undanúrslitaeinvígi liðanna hefst kl. 19.15 á morgun.

„Það er töff að vera komin í úrslitakeppni á aðeins öðru ári liðsins í úrvalsdeild frá upphafi. Nokkrar okkar hafa prófað þetta með öðrum liðum en svo eru margar ungar og óreyndar. Þetta er ný samsetning og við erum rosalega spenntar,“ sagði Ragna Margrét.

„Það er þrusugóð stemning í Garðabænum og nú eru yngri flokkarnir í félaginu að upplifa það í fyrsta sinn að sjá stelpur í úrvalsdeildinni fara langt. Við verðum með fullt af flottum stelpum í stúkunni og hlökkum mikið til,“ bætti Ragna Margrét við.

Höfum vaxið rosalega

Andstæðingur Stjörnunnar í undanúrslitum er ágætur. Snæfell hefur orðið Íslandsmeistari þrjú ár í röð og varð deildarmeistari fyrir skömmu, í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

„Þær eru samt líka með breytta liðsheild frá því í fyrra. Við höfum vaxið rosalega sem lið frá leik til leiks í vetur, og stefnum á að gera það áfram. Við höfum unnið einn leik gegn þeim í vetur en þær þrjá. Einn leikjanna byrjuðum við hrikalega illa og munurinn var um 30 stig allan tímann, en svo unnum við einn og hinir tveir voru frekar jafnir,“ benti Ragna Margrét á.

Í undanúrslitum Dominos-deildar kvenna mætast Snæfell og Stjarnan annars vegar, og Keflavík og Skallagrímur hins vegar. Rimma Keflavíkur og Skallagríms hefst á miðvikudagskvöld í Keflavík.

til baka