mán. 27. mars 2017 19:36
Robbie Brady.
Liðsfélagi Jóhanns fyrirliði gegn Íslandi

Robbie Brady, miðjumaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni, mun bera fyrirliðabandið fyrir Íra í vináttulandsleiknum gegn Íslandi sem fram fer í Dublin annað kvöld.

Brady og Jóhann Berg Guðmundsson eru liðsfélagar hjá Burnley, en Jóhann er sem kunnugt er frá vegna meiðsla. Brady mun spila sinn 32. landsleik á morgun, en hann spilaði sinn fyrsta árið 2012.

Seamus Coleman er fyrsti fyrirliði Íra, en hann fótbrotnaði illa á föstudag í markalausu jafntefli gegn Wales. Hann hefur þegar gengist undir aðgerð, en hann brotnaði eftir slæma tæklingu frá Neil Taylor.

Martin O‘Neill, landsliðsþjálfari Íra, sagði á fréttamannafundi í dag að hann myndi örugglega gefa óreyndari leikmönnum tækifæri til þess að sýna sig í leiknum á morgun. Reynsluboltar á borð við John O‘Shea, Jonathan Walters, Glenn Whelan og James McCarthy verða til að mynda ekki með.

til baka