mán. 27. mars 2017 20:31
Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Tók af skarið í stað þess að kvarta

„Mig langaði að vera fulltrúi sundfólksins í stjórninni og koma okkar málefnum betur að,“ segir Hrafnhildur Lúthersdóttir, afrekskona í sundi og tvöfaldur ólympíufari, í samtali við mbl.is en hún náði kjöri í stjórn Sundsambands Íslands um helgina.

Framboð hennar vakti nokkra athygli, þar sem ekki er algengt að afrekskeppendur í íþróttum gegni stjórnunarstörfum í íþróttasamböndunum sínum.

„Nei einmitt, en það þyrfti kannski bara að breyta því. Að fá betri innsýn frá íþróttafólkinu sjálfu inn í stjórnirnar,“ segir Hrafnhildur, en hún segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð úr sundhreyfingunni.

En hvað kom til að hún bauð sig fram, hefur hún verið ósátt við störf stjórnarinnar?

„Það hafa alveg komið upp mistök hér og þar í gegnum árin varðandi landsliðsferðir, skipulag, samskipti eða eitthvað. Maður hefur kvartað yfir því og talað um það en oft er ekkert gert eða það tekur sinn tíma. Ég hef alltaf haft málefni í huga og tók bara af skarið, bauð mig fram fyrst var tækifæri til þess og hlakka til að sjá hvað kemur út úr því,“ segir Hrafnhildur.

 

Vonast til þess að bæta sundheiminn hér á landi

Hrafnhildur segist því fyrst og fremst vilja brúa bilið á milli þeirra sem taka ákvarðanir og sundfólksins sem um ræðir.

„Það vantar betri samskipti á milli sambandsins og sundfólksins, ekki að það sé eitthvað sérstaklega slæmt heldur má alltaf bæta það. Nú er líka hægt að fá innsýn sundmannsins inn í stjórnina þegar ákvarðanir eru teknar og allt slíkt,“ segir Hrafnhildur.

Hún er hins vegar hvergi nærri búin að stíga upp úr lauginni, enda náði hún á dögunum lágmarki fyrir heimsmeistaramótið í 50 metra laug sem fram fer í Búdapest í sumar. Hún segir að stífar fundarsetur í stjórninni muni í það minnsta ekki hafa áhrif á sundið.

„Nei nei, það eru fundir einu sinni í mánuði og ég held að þetta verði bara spennandi verkefni. Ef þetta er eitthvað sem ég er spennt fyrir og langar virkilega að vinna í þá held ég að þetta taki engan tíma frá sundinu. Mér mun örugglega frekar líða eins og ég sé að bæta sundheiminn hér á landi,“ segir Hrafnhildur Lúthersdóttir við mbl.is.

til baka