fim. 30. mars 2017 11:14
Frá undirritun kaupsamningsins: Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa og formælandi S-hópsins, og Peter Gatti, framkvæmdastjóri þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA.  






(Blaðamannafundur um kaup á Búnaðarbankanum í aðalbankanum)
Skiptu gróðanum sama dag

Sama dag og og bæði baksamningarnir og kaupsamningur S-hópsins og íslenska ríkisins um hlutinn í Búnaðarbankanum voru undirritaðir, hinir fyrrnefndu leynilega en sá síðarnefndi opinberlega, gengu helstu persónur og leikendur fléttunnar frá samkomulagi um skiptingu hugsanlegs hagnaðar. 

Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.

Welling & Partners fékk í sinn hlut rúmlega 100 milljónir Bandaríkjadala sem voru lagðar inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Snemma árs 2006, eða um þremur árum eftir viðskiptin með eignarhlut ríkisins í Búnaðarbankanum, voru 57,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Marine Choice Limited sem stofnað var af lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama en skráð á Tortóla.

 

Raunverulegur eigandi Marine Choice Limited var Ólafur Ólafsson. Um svipað leyti voru 46,5 milljónir Bandaríkjadala greiddar af bankareikningi Welling & Partners til aflandsfélagsins Dekhill Advisors Limited sem einnig var skráð á Tortóla. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um raunverulega eigendur Dekhill eða hverjir nutu hagsbóta af þeim fjármunum sem greiddir voru til félagsins, segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis varðandi sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum fyrir 14 árum.

Aðdragandi og gerð baksamninganna um hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. sem lýst hefur verið fram að þessu sýnir svo ekki verður um villst að þátttaka þýska bankans gegnum Eglu hf. í kaupum S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum var engan veginn með þeim hætti sem kynnt var fyrir íslenskum stjórnvöldum í tengslum við þau kaup og jafnframt öllum almenningi á Íslandi gegnum fjölmiðla.

Að auki má telja ljóst að aldrei stóð einu sinni til að þátttaka bankans yrði með þeim hætti sem kynnt var heldur var styrkur og einbeittur tilgangur þeirra sem stóðu að baksamningunum sá að koma málum leynilega fyrir með öðrum hætti.

Þátttaka Hauck & Aufhäuser gegnum Eglu hf. í söluferli Búnaðarbankans var því frá upphafi aldrei annað en yfirvarp á meðan raunverulegar ráðstafanir varðandi eignarhald Eglu hf. voru samtímis gerðar með hinum leynilegu baksamningum, í þágu Ólafs Ólafssonar og Kaupþings hf.

 

Mörg hlutverk Guðmundar í fléttunni

Baksamningarnir voru gerðir 10. til 15. janúar 2003 í þríhliða samvinnu eins eða tveggja starfsmanna Hauck & Aufhäuser, fáeinna lykilstarfsmanna Kaupþings hf. og Guðmundar Hjaltasonar.

„Ljóst þykir að Guðmundur sinnti því verki af hálfu og í þágu Ólafs Ólafssonar. Guðmundur vann á sama tíma fyrir S-hópinn í heild, sömuleiðis fyrir tilstilli Ólafs Ólafssonar, að samningum við framkvæmdanefnd um einkavæðingu í opinberu söluferli Búnaðarbankans og miðlaði þaðan bæði upplýsingum og gögnum til þeirra sem stóðu með honum að gerð baksamninganna,“ segir í rannsóknarskýrslunni.

Persónulegir trúnaðarmenn Ólafs

Starfsmenn Société Générale, Michael Sautter og Ralf Darpe, voru einnig frá upphafi viðriðnir gerð baksamninganna.

Sömuleiðis má telja ljóst, eins og áður hefur verið rakið, að þeir hafi í reynd verið persónulegir trúnaðarmenn Ólafs Ólafssonar í þessu ferli enda þótt þeir hafi í opinberu söluferli Búnaðarbankans komið fram sem ráðgjafar S-hópsins í heild sinni.

Jafnframt komu stjórnendur og starfsmenn Kaupþings hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að undirbúningi og gerð baksamninganna og ráðstöfunum og gerningum sem tengdust þeim.

 

Þau hljóta að hafa vitað hvað væri í gangi

„Athygli vekur sá fjöldi fólks sem átti þar hlut að máli eða gat ekki dulist hvað málið varðaði, samkvæmt viðkomandi skjallegum gögnum rannsóknarnefndarinnar um þetta tímabil. Sá hópur telur marga af helstu lykilstarfsmönnum fyrirtækisins á þessum tíma (og raunar svo áfram gegnum sameiningu við Búnaðarbankann og allar götur fram að falli Kaupþings banka hf. haustið 2008), utan sjálfs forstjóra Kaupþings hf. á þessum tíma, Sigurðar Einarssonar. Um vitneskju hans eða þátttöku í þessu ferli á þessu tímabili, það er til og með febrúar 2003, verður engu slegið föstu svo óyggjandi sé samkvæmt skjallegum gögnum nefndarinnar einum og sér eða upplýsingum nefndarinnar að öðru leyti. Rannsóknarnefndin hefur því ekki forsendur til að fjalla nánar um eða setja fram ályktanir um það atriði,“  segir í skýrslu rannsóknarnefndar.

 

Martin Zeil, forstöðumaður lögfræðisviðs, og Peter Gatti, meðeigandi og framkvæmdastjóri, hjá Hauck & Aufhäuser stóðu að gerð baksamninganna í nafni þýska bankans.

Í því leynilega ferli átti Zeil einkum virkan þátt en Gatti hafði með höndum að vera fulltrúi bankans út á við í hinu opinbera söluferli.

Keyptu hlut í banka en aðeins tveir komu að kaupunum

„Athygli vekur að fyrir utan þessa tvo menn úr hópi yfirmanna bankans verður ekki séð af neinum fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum rannsóknarnefndarinnar, frá upphafi til enda í þessu ferli, að nokkur annar af stjórnendum Hauck & Aufhäuser hafi komið með beinum hætti að einkavæðingu Búnaðarbankans, hvorki að því að skapa hina röngu ásýnd opinberlega um þátttöku bankans né að hinni raunverulegu þátttöku sem komið var til leiðar með baksamningunum.

Þetta á líka við um eftirleikinn á næstu árum eftir viðskiptin þegar enginn nema Peter Gatti (eða nafnlausir fulltrúar hans) svöruðu af hálfu Hauck & Aufhäuser í íslenskum fjölmiðlum fyrir þátttöku bankans í viðskiptunum, og raunar þá aðeins ef og þá sjaldan sem á annað borð fengust nokkur svör frá bankanum. Sömuleiðis var það Peter Gatti sem sinnti stjórnarsetu í nafni Hauck & Aufhäuser næstu misseri eftir viðskiptin í hinum sameinaða Kaupþingi Búnaðarbanka hf., það er á meðan sýndareignarhald Hauck & Aufhäuser í bankanum gegnum eignarhlut í Eglu hf. taldist vara,“ segir í skýrslunni.

Í þessu sambandi ber einnig að benda á upplýsingar sem Helmut Landwehr, þáverandi meðeigandi og framkvæmdastjóri hjá Hauck & Aufhäuser (og þar með jafnsettur Peter Gatti hjá bankanum) veitti rannsóknarnefndinni. Svo vill til að Landwehr var einmitt sá fulltrúi Hauck & Aufhäuser sem undirritaði, ásamt Martin Zeil, umboð bankans, dags. 14. janúar 2003, til handa Gatti til að undirrita kaupsamninginn við íslenska ríkið um hlutinn í Búnaðarbankanum og fleiri skjöl vegna þátttöku bankans í þessum viðskiptum.

Hefði átt að upplýsa

Landwehr mun síðar á þessu sama ári, 2003, hafa látið af störfum hjá Hauck & Aufhäuser og starfar nú í Bandaríkjunum. Í viðtali við rannsóknarnefndina upplýsti Landwehr almennt um starfsemi bankans á þessum tíma að meðeigendur hjá Hauck & Aufhäuser hefðu þá haft umtalsvert sjálfræði með það hvernig þeir stunduðu viðskipti og sköpuðu viðskiptasambönd.

Samkvæmt Landwehr voru engin almenn takmörk á þeim skuldbindingum sem meðeigendur máttu gangast undir fyrir hönd bankans. Þó hefði, eftir aðstæðum, þurft að upplýsa tilteknar nefndir bankans og fá samþykki þeirra enda þótt slíkt ferli hefði ekki alltaf verið mjög formlegs eðlis. Hvað varðaði þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans gat Landwehr þess að þau viðskipti hefðu verið í höndum Peter Gatti.

Samkvæmt upplýsingum um þau sem veittar hefðu verið innan bankans hafi þátttaka Hauck & Aufhäuser í þessum viðskiptum falist í að halda á hlutabréfum í fjárvörslu fyrir íslenska aðila. Jafnframt kom fram hjá Landwehr að ef Hauck & Aufhäuser hefði, í reynd, fjárfest í eigin nafni í þessum viðskiptum (fyrir um 35 milljónir Bandaríkjadala) hefði slíkt ekki verið mögulegt nema með samþykki stjórnar bankans og tilkynningum til viðeigandi þýskra yfirvalda þar um.

Samkvæmt Landwehr voru viðskipti Hauck & Aufhäuser varðandi Búnaðarbankann ekki lögð fyrir stjórn Hauck & Aufhäuser.

Guðmundur og Ólafur í samstarfi við Kaupþingsmenn

Rannsóknarnefndin telur ljóst að Ólafur Ólafsson, líklega í gegnum trúnaðarmenn sína hjá Société Générale, hafi útvegað Hauck & Aufhäuser til þátttöku í þessum viðskiptum. Jafnljóst megi telja að ráðagerðir um leynilega aðkomu Kaupþings hf. að þessum viðskiptum, sem baksamningarnir gerðu svo að veruleika, má að minnsta kosti rekja aftur til miðs desembermánaðar 2002.

Þótt ekkert liggi fyrir um hvernig eða hvenær samstarf Ólafs og Kaupþingsmanna um þetta hafi nákvæmlega hafist er ljóst að Kaupþing hf. sá síðan í reynd, í samvinnu þar sem við átti við fulltrúa Ólafs, helst þá Guðmund Hjaltason, um gerð baksamninganna og allt sem máli skipti til að koma þeim og síðari framkvæmd þeirra til leiðar, þar á meðal skjalagerð, fjármögnun, opnun bankareikninga, sendingu fjármuna og aðra umsýslu í þessu ferli.

Þá útvegaði Kaupþing hf. aflandsfélagið Welling & Partners Ltd. til að standa að baksamningunum við Hauck & Aufhäuser og stjórnanda fyrir það að nafni til. Sá stjórnandi var Karim Van den Ende sem skrifaði undir baksamningana af hálfu Welling & Partners og átti svo eftir að sjá um að framkvæma samningana og ráðstafanir á grundvelli þeirra allt til enda.

Engar tryggingar fyrir lánum upp á 2,9 milljarða

Í tengslum við gerð baksamninganna sendi Kaupþing hf. 13. og 16. janúar 2003 fyrir hönd Welling & Partners samtals 35.454.372 Bandaríkjadali (þá jafnvirði um 2,9 milljarða króna) inn á nýstofnaðan, eða jafnvel „varla stofnaðan“, bankareikning aflandsfélagsins hjá Hauck & Aufhäuser. Þar af voru um 34 milljónir Bandaríkjadala sendar fyrri daginn en afgangurinn þremur dögum síðar þegar í ljós hafði komið að hlutafjárframlag sem Hauck & Aufhäuser bæri að greiða til Eglu hf. til að fjármagna þátttöku félagsins í kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum myndi hækka sem því nam og þar með nema fyrrnefndri heildarfjárhæð.

Fjárhæðin var handveðsett Hauck & Aufhäuser með veð- og tryggingasamningnum og aflandsfélagið skuldbatt sig til að ráðstafa ekki innstæðunni af viðkomandi bankareikningi félagsins meðan samningarnir væru í gildi.

Greiðslurnar tvær voru báðar sérstaklega bornar undir Hreiðar Má Sigurðsson sem samþykkti þær. Síðar var gerður lánssamningur um þessa fyrirgreiðslu milli Kaupþings hf. og Welling & Partners. Engar tryggingar voru veittar samkvæmt honum af hálfu aflandsfélagsins fyrir endurgreiðslu lánsins. Lánveitingin var samþykkt formlega í lánanefnd Kaupþings hf.

Lánanefndin vissi og áhættan öll hjá Kaupþingi

Allir sem sátu þann fund og samþykktu lánið höfðu átt meiri eða minni þátt í að koma málinu til leiðar innan Kaupþings hf. Kaupþing hf. féll síðar, í nafni Welling & Partners, frá öllum vöxtum af þessari innstæðu hjá Hauck & Aufhäuser.

Af baksamningunum leiddi að Kaupþing hf. bar frá upphafi eitt alla fjárhagslega áhættu sem þeim tengdist, einkum þá vegna þessarar næstum þriggja milljarða króna fjárskuldbindingar.

Á hinn bóginn var hagnaðarvon vegna baksamninganna ekki á sama hátt og áhættan einskorðuð við Kaupþing hf. Kom þar til hið sérstaka samkomulag um skiptingu hagnaðar, dags. 16. janúar 2003, milli annars vegar Welling & Partners og hins vegar aflandsfélagsins Serafin Shipping Corp.

Í því samkomulagi var mælt fyrir um að félögin tvö myndu deila að jöfnu nettóhagnaði, en ekki neinu tapi, vegna þeirrar væntanlegu fjárfestingar á hlutum í Eglu hf. sem baksamningarnir gengu út á að tryggja rétt Welling & Partners til, á þann hátt að Welling & Partners skyldi greiða til Serafin Shipping Corp. helming nettóhagnaðar síns af slíkum viðskiptum.

Af gögnum rannsóknarnefndar verður ekki annað ráðið en að Welling & Partners hafi í reynd aldrei farið úr eigu Kaupþings hf. eða Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á meðan þau atvik gerðust sem hér er fjallað um. Þá er enn fremur ljóst að Ólafur Ólafsson var raunverulegur eigandi Serafin Shipping Corp, segir ennfremur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Af gögnum rannsóknarnefndarinnar telur nefndin einnig hafið yfir allan vafa að tilteknir starfsmenn Kaupþings hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A hafi annars vegar átt beinan og verulegan þátt í eða hins vegar haft vitneskju um baksamninganna og gerð þeirra.

Ljóst er að drög að baksamningunum voru m.a. samin og fullgerð af Bjarka Diego, sem starfaði sem lögfræðingur í Kaupþingi hf. á þessum tíma. Þá fylgdust ýmsir stjórnendur Kaupþings hf. og dótturfélags þess í Lúxemborg með gerð samninganna og tóku ákvarðanir um ráðstafanir sem tengdust þeim og framkvæmd þeirra. Þar á meðal voru Hreiðar Már Sigurðsson, þáverandi aðstoðarforstjóri Kaupþings hf., Steingrímur Kárason, yfirmaður áhættustýringar í Kaupþingi hf., og Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings hf.

Eitthvað rifjaðist upp fyrir Hreiðari

Rannsóknarnefndin sendi einstaklingum úr ofangreindum hópi fyrrverandi starfsmanna Kaupþings hf. einnig bréf með fyrirspurnum.

Í svarbréfi Hreiðars Más til rannsóknarnefndarinnar, dags. 20. mars 2017, kom fram að við lestur á bréfi nefndarinnar „rifjaðist eitthvað upp um lánaviðskiptin“ en að hann treysti sér ekki til að svara spurningum nefndarinnar vegna þess tíma sem liðinn væri frá atvikum málsins án þess að hafa fullan aðgang að gögnum þess.

Í bréfi Bjarka Diego, dags. 20. mars 2017, var enn fremur vísað til þess hversu langt væri um liðið frá atvikum málsins og hann gæti því ekki sagt til um eða svarað fyrir þau atriði sem fyrirspurnir nefndarinnar til hans beindust að.

Í bréfi Steingríms Kárasonar, dagsettu sama dag, kvaðst hann ekki muna með neinni vissu eftir þeim atriðum sem fyrirspurnir nefndarinnar lutu að þannig að hann treysti sér til að svara þeim með áreiðanlegum hætti.

Í bréfi Kristínar Pétursdóttur, dags. 21. mars 2017, sagði að ekki væri útilokað að hún hafi átt einhverja aðkomu að einstökum samningum eða ráðstöfunum sem lýst var í bréfinu þegar hún starfaði hjá Kaupþingi en vegna hins langa tíma sem liðið hefði væri erfitt að segja til um það með afgerandi hætti.

Að mati nefndarinnar liggur fyrir að Sigurður Einarsson, þáverandi forstjóri Kaupþings, fékk sendar upplýsingar í tölvupóstum um lánveitingu Kaupþings til Welling & Partners og fyrirmæli um símgreiðslur vegna þess láns inn á reikning félagsins hjá Hauck & Aufhäuser.

Af gögnum rannsóknarnefndar verður hins vegar ekki ráðið með óyggjandi hætti hvort Sigurður hafi á þeim tíma öðlast vitneskju um gerð baksamninganna og efni þeirra, enda verður hvorki séð að hann hafi komið að ráðstöfunum þeim tengdum eða sent öðrum upplýsingar eða fyrirmæli þar um.

Í bréfi Sigurðar til nefndarinnar, dags. 20. mars 2017, kvaðst hann því miður ekki geta aðstoðað nefndina við að svara þeim spurningum sem að honum væri beint.

Á hinn bóginn er ljóst að hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. höfðu bæði Magnús Guð- mundsson, annar framkvæmdastjóra bankans, og Eggert J. Hilmarsson, lögfræðingur hjá bankanum, vitneskju um gerð baksamninganna, auk þess að taka virkan þátt í ráðstöfunum sem þeim tengdust og síðari framkvæmd þeirra.

Í því sambandi nutu þeir aðstoðar Karim Van den Ende hjá félaginu KV Associates S.A. sem útvegaði félagið Welling & Partners, auk þess að annast ýmsa umsýslu í tengslum við félagið og framkvæmd baksamninganna.

Í bréfi til nefndarinnar, dags. 20. mars 2017, kvaðst Magnús ekki minnast atriða um gerð baksamninganna og framkvæmd þeirra. Eggert kom þeirri afstöðu á framfæri við nefndina að honum væri ekki unnt að svara neinum fyrirspurnum nefndarinnar vegna reglna um bankaleynd í Lúxemborg þannig að hann svaraði ekki spurningum nefndarinnar.

Hugtakið blekking

„Í íslensku lagamáli nær hugtakið blekking almennt til þess að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd manns um einhver atvik. Telja verður raunar að almennur skilningur á þessu hugtaki sé í meginatriðum á sömu lund.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur að þau gögn sem rakin hafa verið og birt í þessari skýrslu, og þau atvik sem umrædd gögn varpa skýru og ótvíræðu ljósi á, sýni fram á svo ekki verði um villst að íslensk stjórnvöld hafi á sínum tíma verið blekkt um aðkomu Hauck & Aufhäuser að þeirri einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands hf. sem lokið var með kaupsamningi 16. janúar 2003.

Á sama hátt varpar skýrsla þessi að mati nefndarinnar skýru og ótvíræðu ljósi á hverjir stóðu að þeirri blekkingu, komu henni fram og héldu svo við æ síðan, ýmist með því að leyna vitneskju sinni um raunverulega aðkomu Hauck & Aufhäuser eða halda öðru fram gegn betri vitund.“

 

til baka