mán. 24. júlí 2017 23:54
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir það demókrötum að kenna að heilbrigðisfrumvarp hans nýtur ekki nægjanlegs stuðnings á þingi.
Konum að kenna að frumvarpið kemst ekki í gegn

Einn þingmanna bandaríska Repúblikanaflokksins segir það vera öldungadeildarþingkonum að kenna að heilbrigðisfrumvarp Donald Trumps Bandaríkjaforseta kemst ekki í gegnum þingið.

Greint var frá því í síðustu viku að frumvarp Trump, sem ætlað er að leysa heilbrigðisstefnu Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, af hólmi nyti ekki stuðnings meirihluta.

Blake Farenthold, þingmaður frá Texas, sagði í viðtali við útvarpsstöð í Texas að ef karlmaður bæri ábyrgð á þessu myndi hann skora hann á hólm.

Þingmaðurinn Susan Collins frá Maine er ein af þremur þingkonum Repúblikanaflokksins sem sagðist ekki munu styðja frumvarpið.

Töluverðar deilur eru um frumvarpið meðal repúblikana sem sumum finnst ganga of langt, en öðrum ekki nógu langt.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um málið í dag og sagði almenning vera „fórnarlömb“ Obamacare, sem hefði eyðilagt bandaríska heilbrigðiskerfið.

„Ég segi þetta við alla þingmenn: Bandaríska þjóðin hefur beðið nógu lengi. Það er búið að tala nóg og gera ekkert. Nú er tími aðgerða,“ hefur BBC eftir Trump. Hann kenndi því næst demókrötum um að hindra tilraunir repúblikana til að koma frumvarpinu í gegn, en flokkur Trumps hefur meirihluta í báðum þingdeildum.

til baka