lau. 23. sept. 2017 13:13
Antonio Conte.
Hrósaði Morata og skaut á Costa í leiðinni

Ítalski knattspyrnustjórinn hjá Chelsea, Antonio Conte, gæti ekki verið ánægðari með Álvaro Morata, framherjann sem kom í stað Diego Costa sem aðalframherji liðsins. Conte lýsir honum sem afar kurteisum manni sem hann telur að allir feður myndu glaðir vilja sjá dóttur sína giftast.

Er það líklega ekki það fyrsta sem manni myndi detta í hug til þess að reyna að lýsa Diego Costa sem fór frá Chelsea á dögunum á ný til Atlético Madrid á 57 milljónir punda, eftir góða þjónustu inni vellinum síðustu ár. Costa er jafnan harður í horn að taka og fékk t.a.m. 10 gul spjöld á síðustu leiktíð sem er nokkuð mikið af framherja að vera.

Conte vildi ekki ræða Costa neitt á blaðamannafundi á dögunum og vildi ekki svara spurningunni um hverjir hann teldi að kostir hans væru. „Ég hef ekki áhuga á að ræða fortíðina,“ sagði Conte en samband þeirra var nokkuð stormasamt hjá Chelsea en sögusagnir voru um það að Costa hefði sagt á fyrsta fundi þeirra fyrir síðasta tímabil að hann vildi fara frá Chelsea. Conte á svo að hafa sagt Costa að hann ætti ekki framtíð hjá Chelsea í smáskilaboðum.

 

Conte er hins vegar mjög ánægður með sinn nýja framherja, Morata, og sér sig vinna með honum næstu 10 árin.

„Hann er mjög heildstæður framherji, en getur einnig bætt sig á ýmsum sviðum. Taktískt, líkamlega og tæknilega. Hann leggur hart að sér og hegðun hans er til fyrirmyndar. Hann er kurteis leikmaður,“ sagði Conte og hrósaði einnig markanefi Morata og afgreiðslum hans.

Spurður hvað hann meinti með að lýsa Morata sem kurteisum sagði Conte: „Hann er mjög góður náungi. Ef þú átt dóttur þá værirðu opinn fyrir því að hún myndi giftast honum. Mjög góður náungi, og kurteis,“ sagði Conte og eflaust ekki tilviljun að hann nefnir þessa hlið á Morata með Costa farinn á brott.

Costa er hins vegar betri en Morata á einu sviði. „Hann getur bætt sig. Þegar ég tala um að hann geti bætt sig þá á ég einnig við þennan hluta leiksins (að vera aðgangsharður),“ sagði Conte.

Chelsea mætir Stoke á útivelli kl. 14 í dag.

til baka