lau. 23. sept. 2017 16:25
Viktor Jónsson skoraði fyrir Þrótt í öruggum sigri.
Þróttur fór illa með Fram

Þróttur vann öruggan 4:0-sigur á Fram á Laugardalsvellinum í lokaumferð Inkasso-deildarinnar, 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Hreinn Ingi Örnólfsson og Viktor Jónsson komu Þrótti í 2:0 eftir aðeins 18 mínútur og Ólafur Hrannar Kristjánsson og Sveinbjörn Jónasson bættu við tveimur mörkum í síðari hálfleik og þar við sat. Þróttur endar í 3. sæti deildarinnar og Fram í 9. sæti. 

Á Selfossi lögðu heimamenn lið Hauka, 2:1. Ísak Jónsson kom Haukum í 1:0 á 17. mínútu en Andy Pew jafnaði á 65. mínútu áður en Ingi Rafn Ingibergsson tryggði Selfossi 2:1-sigur með marki á síðustu mínútunni. Bæði lið enda um miðja deild, Haukar í 7. sæti og Selfoss sæti neðar. 

Leiknir R. vann fallna Gróttumenn, 2:1 í Breiðholtinu. Kolbeinn Kárason skoraði bæði mörk Leiknis en Enok Eiðsson jafnaði þess á milli. Grótta hafnar í neðsta sæti deildarinnar með aðeins níu stig og Leiknir í 5. sæti með 36 stig. 

Þór gerði góða ferð austur og vann Leikni Fáskrúðsfjörð, 3:0. Guðni Sigþórsson kom Þór yfir á 8. mínútu og þeir Ármann Pétur Ævarsson og Aron Kristófer Lárusson tryggðu Þórsurum öruggan 3:0-sigur. Leiknir endar í næstneðsta sæti deildarinnar og Þór í 6. sæti. 

 

til baka