lau. 23. sept. 2017 16:40
Róbert Haraldsson (til hægri)
Sagði Donna að hann fengi ekkert hjá mér

Róbert Jóhann Haraldsson, þjálfari Grindavíkur, var kátur eftir að lið hans sló fagnaðarlátum Þórs/KA á frest með 3:2 sigri í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Þór/KA hefði tryggt titilinn með sigri en Grindavík náði forystunni í þrígang og hélt henni að lokum, Róberti til mikillar ánægju.

„Liðsheildin og uppleggið gekk alveg fullkomlega upp. Ég hef verið að leita að þessum stöðugleika en þetta gekk upp í dag. Þetta var liðsheildarsigur.“

Grindavík komst yfir snemma í leiknum en Þór/KA jafnaði eftir aðeins 60 sekúndur. Þrátt fyrir það héldu heimamenn haus og Róbert var ánægður með hugarfar leikmanna sinna.

„Ég er alltaf að reyna segja það við þær að eftir að maður skorar mark þá er þetta svo hættulegt fyrstu mínúturnar eftir. En þeir eiga hrós skilið fyrir að koma til baka tvisvar sinnum eftir að hafa fengið á sig jöfnunarmark. Þetta er sú frammistaða sem ég hef verið að bíða eftir í sumar.“

„Þeir höfðu eiginlega engin ráð nema að senda háan bolta inn í og við vildum það, svo þegar við náðum boltanum náðum við að sækja hratt og mér fannst þetta sanngjarn sigur í dag.“

Carolina Mendes kom inn á og skoraði tvö mörk fyrir Grindavík í dag en Róbert er ánægður með breiddina í hópnum.

„Carolina og Lauren er þeir framherjar sem áttu að skora fyrir okkur í sumar en það hefur gengið illa fyrir þær í sumar en Carolina setti tvö í dag. Ef maður á erfitt með að velja byrjunarliðið þá er maður með góðan hóp.“

Grindavík hefur gengið ágætlega í sumar og oft staðið í betri liðum deildarinnar og vildi Róbert ekki sjá annað lið fagna Íslandsmeistaratitlinum á hans heimavelli.

„Ég vil sýna það að við eigum alveg séns í þessi lið og við höfum tekið stig gegn þeim öllum nema Val. Ég sagði við Donna að hann fengi ekkert hjá mér, hann verður bara að fara og klára þetta fyrir norðan á föstudaginn.“

Róbert var sendur upp í stúku af dómaranum skömmu fyrir sigurmarkið, hvað gerðist?

„Línuverðinum fannst ég segja eitthvað of mikið. Ég er búinn að vera voða stilltur í sumar en núna sagði ég eina eða tvær línur og var sendur upp í stúku. Stelpurnar tóku sig bara til og skoruðu þriðja markið þegar ég var kominn upp í stúku.“

til baka