lau. 23. sept. 2017 16:50
Daniel Ceballo fagnar síðara marki sínu í dag.
Madrid marði sigur gegn botnliðinu

Hinn 21 árs gamli Dani Ceballos skoraði tvívegis fyrir Real Madrid í sínum fyrsta byrjunarliðsleik hjá liðinu er Madrid vann afar mikilvægan sigur á Alaves í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu þar sem lokatölur urðu 2:1 á heimavelli Alaves.

Hann kom Real Madrid yfir á 10. mínútu og gerði það aftur á 43. mínútu eftir að Manu Garcia hafði jafnað metin fyrir Alaves þremur mínútum áður. Alaves er í miklu veseni í deildinni og er án stiga eftir sex umferðir en fyrir leikinn var umtalið aðallega um að Enzo Fernández, sonur Zinedine Zidane, væri í liðinu. Hann var hins vegar ekki í hóp í dag.

Real Madrid hefur 11 stig í 4. sæti deildarinnar en er samt sem áður fjórum stigum á eftir erkifjendum sínum í Barcelona sem hafa 15 stig og eiga leik til góða. Barcelona mætir Girona síðar í kvöld.

Cristiano Ronaldo náði ekki að skora fyrir Real Madrid annan leikinn í röð sem þykja tíðindi til næsta bæjar og Real átti í vandræðum með að slíta slakt lið Alaves frá sér en liðið hafði ekki skorað fyrr í deildinni fyrr en í dag.

 

til baka