þri. 21. nóv. 2017 21:59
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar og félagar í annað sætið

Aron Einar Gunnarsson og félagar komust upp í annað sætið í ensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld þegar þeir unnu sætan 1:0 sigur gegn Barnsley á útivelli.

Callum Paterson skoraði sigurmarkið sjö mínútum fyrir leikslok og Cardiff er stigi á eftir toppliði Wolves. Aron Einar var í byrjunarliði Cardiff en fór af velli á 74. mínútu leiksins.

Birkir Bjarnason sat sem fastast á varamannabekk Aston Villa sem hafði betur gegn Sunderland, 2:1. Hörður Björgvin Magnússon var sömuleiðis ónotaður varamaður hjá Bristol City sem tapaði á heimavelli fyrir Preston.

Jón Daði Böðvarsson kom inn á á 66. mínútu í liði Reading og þá fóru hlutirnir að gerast hjá Reading-liðinu gegn Bolton á útivelli. Bolton komst í 2:0 en Reading tókst að jafna metin með tveimur mörkum á síðasta stundarfjórðungi leiksins. Axel Óskar Andrésson var ekki í leikmannahópi Reading.

til baka