27. júní, 2005
KETILL HÖGNASON

KETILL HÖGNASON

Ketill Högnason fæddist í Reykjavík 20. maí 1944. Hann lést á líknardeild Landspítalans 19. júní síðastliðinn. Foreldrar hans eru Högni Helgason, fulltrúi hjá Rafmagnsveitum ríkisins í Reykjavík, f. 26. sept. 1916, d. 14. apríl 1990, og Kristín Halldórsdóttir, verslunarmaður í Reykjavík, f. 3. júlí 1920. Systkini Ketils eru: Guðrún, f. 18. des. 1941, d. 21. nóv. 1969; Hildur, f. 9.des. 1946; og Haukur, f. 1. ágúst 1950.

Hinn 26. des. 1964 kvæntist Ketill Hildigunni Davíðsdóttur, f. á Bergsstöðum í Aðaldal í S-Þing. 27. jan. 1943. Foreldrar hennar voru Davíð Áskelsson kennari, f. 10. apríl 1919, d. 14. júlí 1979, og Guðbjörg Kristjánsdóttir, f. 7. nóv 1918, d. 30. nóv. 1972. Börn Ketils og Hildigunnar eru: 1) Helgi, húsasmiður, f. 27. maí 1965, kvæntur Guðrúnu Jóhönnu Sveinsdóttur, f. 5. sept. 1966. Þeirra börn eru a) Katla Dóra, f. 24. mars 1993. b) Hildigunnur, f. 10. júní 2005. Fyrir átti Helgi soninn Arnar Frey, f. 30. mars 1987. Barnsmóðir Auður Sigurjóna Jónasdóttir. 2) Davíð, íþróttakennari og húsgagnasmiður, f. 14. des. 1969, kvæntur Drífu Lind Gunnarsdóttur, f. 12. júní 1969. Börn þeirra: a) Hildur, f. 7. mars 1997. b) Kjartan, f. 7. júní 1999. 3) Guðbjörg, sjóntækjafræðingur, f. 8. apríl 1973, gift Mikael Svend Sigursteinssyni, f. 16. jan. 1970. Börn þeirra: a) Helena, f. 20. nóv. 1995. b) Kristján, f. 28. febr. 2001.

Ketill lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964, varð cand.odont. frá Háskóla Íslands 1972 og stundaði framhaldsnám í tannréttingum við Óslóarháskóla 1982-1984. Ketill starfaði sem tannlæknir í Reykjavík til 1973, bjó á Ísafirði 1973-1975 og rak tannlæknastofu, og á Selfossi frá 1975-1982. Hann var aðstoðarkennari við Óslóarháskóla, Det Odontologiske fakultet, veturinn 1983-1984 og stundakennari í tannréttingum við tannlæknadeild Háskóla Íslands veturinn 1986-1987. Hann starfaði við tannréttingar í Reykjavík frá 1984 og rak eigin stofu þar frá mars 1986 til dauðadags. Hann starfaði jafnframt reglulega á tannlækningastofunni á Egilsstöðum frá 1991 til 2002.

Ketill gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum; Hann var ritstjóri Harðjaxls 1969, formaður stjórnar Félags íslenskra tannlæknanema 1970, í stjórn Félags sérmenntaðra tannlækna frá 1990. Hann var félagi í Lionsklúbbum á Ísafirði, Selfossi og í Kópavogi og formaður Samkórs Kópavogs 1998-2000.

Útför Ketils Högnasonar verður gerð frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.