28. desember, 2005
FRIÐÞJÓFUR JÓHANNESSON

FRIÐÞJÓFUR JÓHANNESSON

Friðþjófur Jóhannesson, útgerðarmaður og framkvæmdastjóri á Vatneyri við Patreksfjörð, fæddist þar 28. desember árið 1905 og í dag eru því l00 ár frá fæðingu hans.

Foreldrar hans voru merkishjónin Ólafur Jóhannesson, konsúll, f. 8. nóvember 1867, d. 2. febrúar 1936 og kona hans Áróra Gunnarsdóttir Bachmann f. 14. október 1874, d. 27. október 1954.

Bræður Friðþjófs voru 1) Gunnar, f. 1. febrúar 1896, d. 3. júní 1956. 2) Kristinn, f. 18. febrúar 1897, d. 19. desember 1932, kvæntur Jóhönnu Lárusdóttur, f. 18. desember 1895, d. 23. október 1975. 3) Garðar, f. 27. október 1900, d. 14. janúar 1970, kvæntur Láru Hildu Proppé, f. 27. júní 1905, d. 12. júlí 1992.

Á skólaárum sínum í Flensborg í Þýskalandi kynntist Friðþjófur eiginkonu sinni Jóhönnu Cecilie Margaretu Svensson. Hún var fædd í Flensborg 19. mars 1908 og starfaði þar sem bókavörður. Hún lést 23. nóvember 1994.

Eftir barnaskóla og einkakennslu á Vatneyri hóf Friðþjófur störf við fyrirtæki föður síns, en árið 1925, tvítugur að aldri hélt hann utan til náms við verslunarskóla í Flensborg. Heimkominn að námi loknu höfðu þau Jóhanna bundist tryggðaböndum og í september 1929 fór hann aftur til Þýskalands til að sækja heitkonu sína og gengu þau í hjónaband á Vatneyri 20. desember árið 1929. Þau hjónin eignuðust fjögur börn.

Þau eru: 1) Unnur f. 28. september 1930, gift Eyjólfi Kolbeins Sigurjónssyni, f. 23. ágúst 1924, d. 14. ágúst 2001. Börn þeirra: Friðþjófur Karl, Jóhanna Katrín, Sigurjón Árni og Eyjólfur Kolbeinn. 2) Kristinn f. 24. október 1933, d. 25. febrúar 1996, kvæntur Elínu Oddsdóttur f. 2. maí 1930. Þau skildu. Börn þeirra: Sólrún, Hauður, Þóra Sjöfn og Anna Margrét. 3) Kolbrún, f. 26. janúar 1936, gift Jóhanni Þorsteinssyni, f. 24. ágúst 1928. Börn þeirra: Sigurður Barði, Steingerður, Áróra og Friðþjófur. 4) Bryndís f. 26. mars 1946, gift Sigurði Bjarnasyni, f. 28. nóvember 1943. Þau skildu. Dóttir þeirra er Jóhanna María.

Pétur Thorsteinsson á Bíldudal keypti Vatneyrarverslun árið 1896 og réð Ólaf Jóhannesson sem factor, en ári seinna, 1897, keypti Milljónafélagið verslunina og Ólafur hélt áfram sínu starfi og stjórnaði fyrirtækinu af miklum skörungsskap. Þegar Milljónafélagið hætti starfsemi 1914, keypti Ólafur mestallar eigur Vatneyrarverslunar og síðan efldi hann útgerðina, sem saman stóð af skútum og vélbátum og stofnaði til umfangsmikillar fiskverslunar.

Kristinn, næstelsti bróðirinn, mun hafa snemma tekið virkan þátt í rekstrinum með föður sínum og síðan komu Garðar og Friðþjófur að fyrirtækinu, þegar þeir höfðu aldur til og einnig Gunnar. Söguleg umskipti verða á rekstrinum árið 1925, þegar togarinn Leiknir er keyptur. Með því hefst togaraútgerð á Patreksfirði. Hann strandaði við Skeiðarársand, en mannbjörg varð. Í stað hans var annar togari keyptur árið 1931 og hlaut hann sama nafn og þrátt fyrir að heimskreppan gerði mörgum erfitt fyrir var ráðist í kaup á Gylfanum árið 1932.

Sama ár andaðist sonurinn Kristinn og munu þá bræðurnir Garðar og Friðþjófur hafa komið enn meira að rekstrinum.

Miklir erfiðleikar fylgdu í kjölfar kreppuáranna og fór útgerðin á Vatneyri ekki varhluta af því, og síðustu æviár Ólafs Jóhannessonar stóð fyrirtækið höllum fæti, er hann lést 1936. Sama ár sökk Leiknir annar á Halamiðum en mennirnir björguðust.

En synir Ólafs höfðu tröllatrú á togaraútgerðinni og efldust við hverja raun. Enn var keyptur togari, sá hlaut nafnið Vörður. Til skipstjórnar á skipum þessum, Verði og Gylfa, völdust afburða aflamenn, Jóhann Pétursson og Gísli Bjarnason. Þeir brugðust ekki hinum sókndjörfu ungu mönnum og færðu þann afla að landi, sem kom fyrirtækinu á réttan kjöl um leið og atvinnulífið komst í það horf, að aukin velmegun og velsæld blómgaðist á Patreksfirði.

Við lát föðurins, Ólafs, hafði yfirstjórn fyrirtækisins færst í hendur bræðranna, en nú skiptu þeir með sér verkum. Garðar sá um útgerðina, netaverkstæðið, ís og frystihús, þar sem ísinn var tekinn af Vatneyrartjörninni og svo seinna upp úr 1940 var rekstur frystihússins Kaldbaks alfarið í höndum hans.

Garðar og Friðþjófur voru á margan hátt ólíkir. Ekki þar fyrir að framkvæmdahugurinn, útsjónarsemin og dugnaðurinn væri ekki sá sami hjá báðum, heldur má kannski segja að Friðþjóf hafi dreymt stærri drauma um nýjungar og uppbyggingu, sem aðrir komu ekki auga á. Hann kynntist karfamjölsvinnslu í Þýskalandi og með samþykki föður síns fór hann til Þýskalands í janúar 1936 og festi kaup á vélum í karfamjölsverksmiðju hjá fyrirtækinu Albert O. Petersen í Hamborg. Vélarnar fékk hann að láni með þeim skilmálum að greiða þær með vissri prósentu af seldu mjöli. Petersen sendi mann með vélunum til að annast uppsetningu þeirra og l. júní 1936 tók verksmiðjan til starfa. Báðir togararnir fóru nú á karfaveiðar á Halanum og slíkur var aflinn að þeir fylltu sig af karfa á nokkrum dögum og auk þess var dekkið fullt af fiski. Verksmiðjan gekk á vöktum allan sólarhringinn. Vinnslan á karfanum skapaði mikla vinnu í landi og hún varð fyrirtækinu og bæjarfélaginu mikill búhnykkur og lyftistöng.

Í ört vaxandi byggð er nauðsynlegt að hafa gott samkomuhús. Á þessum árum var lítið samkomuhús á Patreksfirði, svokallað Stúkuhús. Það fullnægði engan veginn þörfinni. Nú hófst Friðþjófur handa og fyrir forgöngu hans og Sjálfstæðisfélagsins Skjaldar reis nýtt stórt samkomuhús af grunni. Þar var unnið mikið sjálfboðaliðsstarf og fullbúið mun það hafa verið stærsta samkomuhús á Vestfjörðum með ágætu leiksviði, veitingasal og stórum samkomusal, sem stærri var en salurinn í Iðnó. Síðar lét hann byggja viðbyggingu við húsið til að koma fyrir kvikmyndavélum og bíó á Patreksfirði varð að veruleika langt á undan því sem var í öðrum bæjarfélögum íbúunum til mikillar ánægju.

Eitt af þeim fyrirtækjum, sem Friðþjófur stjórnaði var lítil trésmiðja og vélaverkstæði. Hann hafði forgöngu um að reist var myndarleg bygging, sem hýsti vélsmiðjuna Sindra og bjó hana nýtísku vélum, sem ekki var vanþörf á sökum sífellt aukinnar þjónustu við breska, þýska og íslenska togara, eigin skip og svo allt byggðarlagið.

Árið 1938 réð hann úrvalsmann til að veita vélsmiðjunni forstöðu, en þar störfuðu að jafnaði um og yfir 20 manns. Maðurinn var Andrés Gunnarsson, sem síðar varð þjóðkunnur fyrir módelsmíð að nýrri gerð togara, skuttogaranum. Í minningargrein um Andrés látinn segir m.a. "Á árunum um og eftir síðustu heimsstyrjöld var aðstaða til fiskvinnslu og útgerðar á Vatneyri einhver sú glæsilegasta á landinu öllu. Fullkominn rafdrifinn löndunarkrani, sem rann á teinum, var fremst á bryggjunni. Ennfremur löndunarkassar, sem opnuðust og lokuðust sjálfkrafa án þess að mannshöndin kæmi þar nærri. Færiband var þar einnig, sem flutti ís, salt eða kol niður í lest togaranna. Í frystihúsinu var ný gerð frystitækja, sem raunar urðu síðar fyrirmynd að frystitækjum í flestum frystihúsum landsins." Þessi tæki voru hönnuð af Andrési Gunnarssyni og smíðuð í vélsmiðjunni Sindra.

Fyrirtæki Vatneyrarbræðra efldist mjög með tilkomu frystihússins Kaldbaks upp úr 1940, enda var húsið í fararbroddi annarra húsa vegna stærðar sinnar, góðs skipulags og vélvæðingar. Þar var fjölmennasti vinnustaðurinn á Patreksfirði frá 1945 til 1963.

Á stríðsárunum blómgaðist mjög hagur togaraútgerðarinnar á Vatneyri, og ekki nutu bæjarbúar síður góðs af þessari vaxandi velmegun. Straumur fólks kom frá nálægum sveitum og þorpum, atvinna var næg fyrir alla og íbúðarhúsum fjölgaði ört þannig að íbúafjöldinn var um 1.200 manns um og eftir lok stríðsins.

Uppbygging Vatneyrarfyrirtækjanna var í algerum sérflokki. Þar var allt til alls til togaraútgerðar, veiðarfæra, - ís- og olíusala til skipa og öll þjónusta fyrsta flokks, svo orð fór af.

Í stríðslok voru báðir togararnir seldir og kolakynt gömul skip, burðameiri og stærri, keypt í Englandi í stað þess að endurnýja með nýsköpunartogurum, og það var ekki fyrr en á árunum 1951 til 1952, sem nýir togarar komu til sögunnar, Gylfi og Ólafur Jóhannesson. Burðarás útgerðarinnar á Vatneyri, togaraútgerðin, hafði gengið fram að þessu að mestu áfallalaust fyrir sig og án mannskaða, en 29. janúar 1950 sökk gamli gufutogarinn Vörður á leið til Englands með fiskfarm og fórust fimm menn með skipinu. Þetta var óskaplegt áfall fyrir þá bræður Garðar og Friðþjóf og þeir tóku þetta slys ákaflega nærri sér. Sár harmur var einnig kveðinn að byggðarlaginu.

En ekki var ein báran stök, því skömmu siðar sköpuðust þær aðstæður, að Garðar hvarf frá fyrirtækinu og Friðþjófur tók við rekstrinum.

Afar erfið og mögur ár fylgdu í kjölfarið, þannig að árið 1965 lagðist togaraútgerð niður á Patreksfirði fyrir fullt og allt.

Áður hefur það komið fram að Friðþjófur Jóhannesson var hugsjónamaður með stórbrotnar hugmyndir. Hann hafði oft velt því fyrir sér hvernig unnt væri að gera örugga hafnaraðstöðu á Vatneyri. Staurabryggjan við suðausturodda Vatneyrarinnar var eign fyrirtækisins og var orðin gömul og lúin þrátt fyrir þokkalegt viðhald. Auk þess var bryggjan hættulegt skipalægi, sérstaklega í suðvestanáttinni. Hann sá líka að úrbóta var þörf vegna aukinna umsvifa og fjölgunar á komu skipa og hann kom auga á úrlausn. Var hún ekki sú að grafa út og dýpka Vatneyrartjörnina og grafa rennu inn í malarrifið, sem aðskildi sjóinn og tjörnina? Ég nefni vatnið tjörn, því í bernsku minni gekk Vatneyrarvatnið aldrei undir öðru nafni.

Á seinni stríðsárunum tók Friðþjófur mikinn þátt í félagsmálum á Patreksfirði, þegar hann var kosinn í hreppsnefnd og varð seinna formaður hafnarnefndar. Og nú var ekki lengur til setunnar boðið. Hann flutti tillögu í hafnarnefnd um byggingu hafnarinnar, sem var samþykkt með einu mótatkvæði. Næsta skref var að ræða við vita- og hafnarmálastjóra, sem var Emil Jónsson. Hann kom vestur og honum leist vel á fyrirhugaðar framkvæmdir.

Árið 1945 var byrjað að dæla vatninu úr tjörninni og í janúar árið 1946 var svo byrjað að grafa fyrir höfninni og tjörnin dýpkuð. Járnþil var rekið niður, sem myndar viðleguplássið og að lokum kom dýpkunarskip Vitamálastjórnar og gróf rennu gegnum malarrifið og inn í tjörnina. Að framkvæmdum loknum var þarna komin lífhöfn, sú allra tryggasta og besta báta- og skipahöfn á landinu.

Náttúruperlan, Vatneyrartjörnin, paradís fuglanna, leiksvæði okkar barnanna, sumar vetur vor og haust, var nú horfin. Mundi slík framkvæmd hafa verið samþykkt í dag? Um það er erfitt að spá. Hins vegar verður því ekki móti mælt, að góð höfn á þessum tíma var algjör forsenda afkomu íbúa sjávarbyggðar á Patreksfirði, þar sem allt veltur á gjöfulum sjávarafla. Þessi sannindi réðu fyrst og fremst byggingu Vatneyrarhafnar og frumkvæði Friðþjófs mun halda nafni hans á lofti svo lengi sem byggð helst á Patreksfirði.

Vegna þekkingar Friðþjófs á útgerð og málakunnáttu hans, en hann talaði þýsku eins og innfæddur og bjó yfir góðri kunnáttu í ensku, var hann beðinn um af LÍÚ og ríkisstjórninni að fara til Þýskalands árið 1947 til að greiða úr örðugleikum íslensku togaranna á löndun ísfisks í þýskum höfnum. Hafnirnar í Hamborg, Cuxhaven og Bremerhaven voru á þessum tíma í rúst eftir stríðið. Með honum í för var Björn Thors, sem einnig var sendur af sömu aðilum og tók hann til starfa í Cuxhaven. Friðþjófur settist að í Hamborg og opnaði þar fljótlega skrifstofu. Þriðji maðurinn var Pétur Eggerts Stefánsson, sem búettur var í Bretlandi og settist hann að í Bremerhaven.

Friðþjófur átti góð samskipti við hernámslið Breta á svæðunum, sem liðsinnti honum á allan hátt, m.a. fengu þeir honum bíl með bílstjóra til umráða, en það kom sér afar vel fyrir hann, því að þannig gat hann farið á milli löndunarstaðanna og fylgst með því hvernig málin þróuðust.

Er ekki að orðlengja það, að á skömmum tíma komust löndunarmálin í lag, en ísfisksölur til Þýskalands voru á þessum tíma mjög þýðingarmiklar fyrir afkomu nýsköpunartogaranna og ekki síður Þjóðverja, sem skorti sárlega matvæli.

Á þessum árum var rafvæðing hinna mörgu byggðarlaga á Vestfjörðum frumstæð. Smáar afllitlar rafstöðvar voru þó víða, en vart til frambúðar. Friðþjófur fékk þá hugmynd að virkja Dynjandisfoss í Arnarfirði. Árið 1943 kom hann að máli við prófessor Finnboga Rút Þorvaldsson, forstöðumann verkfræðideildar Háskólans, um að sjá um rannsóknir á virkjunarsvæðinu. Hann réði þrjá verkfræðinema til að annast þessar rannsóknir og höfðust þeir við í tjöldum allt sumarið. Þessir menn voru Bragi Þorsteinsson, Helgi Árnason og Snæbjörn Jónasson.

Niðurstaða rannsóknanna mun hafa verið sú að gert yrði uppistöðulón við stöðuvatn uppi á brún fjallsins, þar sem upptök árinnar voru, en ekki hróflað við fossinum. Vatneyrarfyrirtækið mun hafa greitt allan kostnað af þessum rannsóknum. Að þeim loknum tók Friðþjófur sér ferð á hendur vestur um firðina og reifaði málið við frammámenn sveitarfélaganna. Hann lauk ferð sinni á Ísafirði þar sem hann ræddi rafvæðinguna við bæjarstjórnina, sem mun hafa drepið málinu á dreif og svæft það.

Það var svo á árunum 1948 til 1949 að athafnaskáldið fékk enn stórbrotna hugmynd. Hún var sú að reisa hvalveiðistöð á Suðureyri í Tálknafirði en þar hafði á árum áður verið rekin hvalstöð í eigu Norðmanna og Íslendinga. Friðþjófur komst í samband við stórfyrirtækið Henckel A.G. í Þýskalandi, sem sérhæfir sig í framleiðslu á alls konar efnavörum. Komu þrír menn frá fyrirtækinu til Patreksfjarðar til skrafs og ráðagerða, en því miður varð ekkert úr framkvæmdum.

Friðþjófur var lengst af umboðsmaður fyrir þýska togara og margir þeirra komu inn til Patreksfjarðar til að fá þjónustu. Árið 1960 varð hann þýskur konsúll, virðingartitill, sem hann lagði mikla rækt við, og árið 1971 var hann sérstaklega heiðraður af ríkisstjórn Vestur-Þýskalands.

Hann var fjölfróður um sögu byggðarlagsins sem og útgerðarsöguna og margir gamlir gripir, áhöld, skjöl og bækur frá fyrri tíð voru í vörslu hans.

Jóhanna, hans ljúfa og elskulega eiginkona, var aðeins sautján ára, þegar þau kynntust. Má geta nærri hvílík viðbrigði það hafa verið fyrir hana að flytjast norður á hjara veraldar árið 1929. Hún var mikil húsmóðir, sem fyrst og fremst lét sér annt um eiginmanninn, börnin og heimilið. Gestakomur voru tíðar hjá þeim hjónum og sinnti hún þeim af miklum myndarskap.

Friðþjófur Jóhannesson var merkur athafnamaður sinnar tíðar. Hann bjó yfir sérstæðum persónuleika, var gæddur réttlætiskennd og heilbrigðri skynsemi og átti til skemmtilegan húmor. Hann mun hafa greitt götu margra er til hans leituðu. Ég kynntist honum, þegar hann vorið 1946, réð mig til starfa á skrifstofu þeirra bræðra. Fyrir það var ég honum ávallt þakklátur.

Friðþjófur lést á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar 25. desember 1971 eftir þriggja og hálfs árs erfitt veikindastríð.

Þórhallur Arason.