16. mars, 2007
Ólafur Eysteinsson

Ólafur Eysteinsson

Ólafur Eysteinsson fæddist í Litla Langadal á Skógarströnd 16. febrúar 1920. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 11. mars s.l. Foreldrar hans voru Eysteinn Finnsson f. 1. maí 1880, d. 29. apríl 1956 og k.h. Jóhanna Oddsdóttir f. 27. nóvember 1876, d. 4. september 1960. Ólafur var næstyngstur 13 systkina. Þau voru: Guðbjörg f. 1903, Oddur f. 1904, Dagbjört f. 1906, Finnur f. 1907, Kristín f. 1909, Kristján f. 1910, Daníel f. 1911, Sesselja f. 1914, Hólmfríður f. 1915, Einar f. 1917, Arnbjörg f. 1918, og Friðrik f. 1922. Einar er einn núlifandi af þeim systkinum.

Þann 29. desember 1962 giftist Ólafur Öldu Jónasdóttur búsettri í Keflavík frá 1950, en frá Emmubergi á Skógarströnd. Foreldrar hennar voru Jónas Guðjónsson f. 25. apríl 1897, d. 24. júní 1969 og k.h. Jófríður Pétursdóttir f. 4. september 1900, d. 27. október 1948. Synir Ólafs og Öldu eru: 1) Jónas Eggert Ólafsson f. 01.08.1962, eiginkona Guðrún Ármannsdóttir f. 1963. Börn þeirra eru: a) Alda Hrönn f. 1984, sambýlismaður Ásgeir Alexandersson f. 1984 b) Agnar Logi f. 1989 c) Eyþór Ármann f. 1999 d) Kolbrún Björk f. 2001. 2) Friðrik Ólafsson f. 25.09. 1963, d. 10.05. 1992. Sonur hans er Árni Ólafur f. 1990. Barnsmóðir Þórdís Súna Pétursdóttir. 3) Sigurður Marjón Ólafsson f. 25.12. 1964, sambýliskona Guðrún Karí Aðalsteinsdóttir. Sonur hans er Daníel Örn f. 1983, sambýliskona Rebekka Jóhannesdóttir f. 1984. Barnsmóðir Sjöfn Garðarsdóttir f. 1966. Sonur Daníels er Hafsteinn Ingi f. 2005. Barnsmóðir Lára Þórðardóttir f. 1985.

Ólafur ólst upp á Skógarströndinni og hóf ungur búskap á Klungurbrekku í sömu sveit. Bjó hann þar í 15 ár. Árið 1961 fluttist hann til Reykjavíkur og síðar til Keflavíkur. Bjó hann þar ásamt fjölskyldu sinni á Vesturgötu 17 og bjó þar alla tíð síðan. Ólafur starfaði við sjómennsku, vann lengi á Keflavíkurflugvelli, stundaði ýmis störf í Keflavík. Síðustu 20 starfsárin starfaði hann sem húsvörður í flugturninum á Keflavíkurflugvelli ásamt Öldu eiginkonu sinni.

Útför Ólafs verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag 16. mars og hefst athöfnin kl. 11.00.