Fimmtudagur, 30. apríl 2009

Árni Elfar

Árni Elfar fæddist á Akureyri 5. júní 1928. Hann lést 5. apríl 2009 og var jarðsunginn í kyrrþey 8. apríl.

Kveðja frá Lúðrasveit Reykjavíkur


Árni Elfar tón- og myndlistarmaður andaðist 5. apríl sl. Margir eiga honum þakkir að gjalda fyrir að auðga líf þeirra með list sinni á óvenju fjölbreyttan hátt. Við í Lúðrasveit Reykjavíkur áttum því láni að fagna að eiga Árna að félaga og vini í áratugi. Hann var orðinn fullmótaður píanóleikari þegar hann hann féll fyrir töfrum brasshljóðfæranna og básúnan varð fyrir valinu sem hans annað hljóðfæri. Þeirri færni náði hann með trombóninn að Árni var atvinnumaður áratugi í Sinfóníhljómsveit Íslands, en lék einnig í stórsveitum.

Árni var vinnusamur maður og féll aldrei verk úr hendi. Það var því mikið lán fyrir LR að hann skyldi gefa okkur svo mikið af tíma sínum. En í raun kom það til vegna þess að hann var alla tíð mjög örlátur á list sína, bæði tón- og myndlist. Árni var einfaldlega gjafmildur maður. Þegar við komum saman til að gleðjast settist Árni gjarnan við píanóið til að auðga stundina með tónum og þá tóku fleiri oftast undir með honum. Svona var hann líka í myndlistinni. Hann rétti gjarnan óbeðinn að fólki teikningu sem hnitmiðað dró fram sérkenni þess. Þarna eins og í öðru var hann góður gleðigjafi, því alltaf var áherslan á hið fagra og göfuga í fari hvers og eins, þótt stutt væri í kímnina.
Margir þeirra sem nú eru orðnir nokkuð við aldur minnast þess með gleði og nokkrum trega hvernig skemmtanalífi borgarinnar var háttað upp úr miðri síðustu öld. Í öldurhúsum borgarinnar léku þá færustu hljóðfæraleikarar landsins sem vel gerðu sér grein fyrir því hlutverki sínu að breyta gráum hversdagsleikanum í gleðistund þegar gengið var í gylltan sal. Árni var einn af þessum mönnum og hann veitti þar af sama örlæti og hans var háttur hvar sem hann fór.
Eins og sannir listamenn var Árni ákaflega sjálfum sér nægur eins og það er orðað, og hafði sig raunar lítt í frammi. En nærvera hans var slík og mannkærleikur, ásamt góðum húmor, að hvar sem hann fór eignaðist hann trausta og góða vini sem kunnu að meta mannkosti hans. Hann lagði enda aldrei illt til nokkurs manns. Hann var sá gæfumaður að eiga frábæran lífsförunaut þar sem Kristjana Magnúsdóttir er. Þau voru samstillt og bættu hvort annað. Við í Lúðrasveit Reykjavíkur eigum henni líka miklar þakkir að gjalda fyrir gott og óeigingjart starf í þágu sveitarinnar. Hvenær sem við komum saman gladdi hún okkur með nærveru sinni; hún var ómetanlegur félagi annarra lúðrasveitarkvenna og góður ferðafélagi.
Við félagar Árna Elfars í Lúðrasveit Reykjavíkur syrgjum hann og þökkum honum og Kristjönu samfylgdina.

Sverrir Sveinsson

Kæri afi minn, takk fyrir allt saman, og takk fyrir að vera besti afi í heimi. Vonandi líður þér betur hjá guði. Ég elska þig,

þín,

Nadía Kristjana Samúelsdóttir Elfar
Árni Elfar tónlistarmaður fæddist á Akureyri 5. júní 1928. Foreldrar hans voru Elísabet Þórunn Kristjándsdóttur frá Sauðárkróki og Benedikt Elfar Árnason frá Akureyri. Voru þau bæði tónmenntafólk og glæddist því sjálfkrafa áhugi sonarins á tónlist.
Árni missti móður sína ungur og systir hans, eina systkinið hans, fluttist ung vestur um haf, þannig að hann fór snemma að ala önn fyrir sér sjálfur. Nam hann því meðfram vinnu hljóðfæraleik í áföngum og leitaði til margra kennara á ferli sínum, s.s. Árna nafna síns Kristjánssonar, píanóleikara.
Opinber tónlistarferill hans hófst á dansæfingum í gagnfræðaskóla. Fyrir tvítugt var hann kominn í hljómsveit Börns R. Einarssonar, sem var vinsælasta danshljómsveitin hér á þeim tíma. Árið 1950 hélt hann til Vestmannaeyja og starfaði um skeið með Sextett Haraldar Guðmundssonar. Í Eyjum tók hann að æfa sig á básúnu, sem fleytti honum seinna inn í Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem hann lék í hartnær þrjá áratugi. Á sama tíma lék Árni í ýmsum hljómsveitum s.s. KK sextettinum, Svavar Gests, Quintett Gunnars Ormslev, en sú hljómsveit vann til verðlauna á jazzhátíð í Moskvu á þeim tíma. Síðar lék hann með hljómsveitum Karls Linniendahl og Ragnars Bjaransonar. Oft stjórnaði Árni hljómsveitum sjálfur en lét dans- og dægurtónlistina að mestu á hilluna upp úr 1972.
Árni var afburðar jazzpíasnisti og kom fram með fjölda erlendra tónlistarmanna á ferli sínum. s.s. Ronnie Scott, Lee Konitz og Tyree Glenn, svo einhverra sé hér getið.
Meðfram hljóðfæraleiknum stundaði Árni alltaf myndlistina og kom við í Myndlistarskólanum í Reykjavík um skeið. Lengi vel fór hann hvergi án þess að hafa blokk og teikniblýant með sér. Skipta því andlitsmyndir hans af ýmsu fólki hundruðum, m.a. teiknaði hann myndir af öllum félögum sínum í Sinfóníuhljómsveitinni og stjórnendum hennar.
Hljómlistarmaðurinn, listmálarinn, teiknarinn, bókaskreytirinn, myndhöggvarinn, leirlistamaðurinn og lagasmiðurinn, Árna Elfar, er fyrir löngu landsþekktur gleðigjafi, en hann var af öðrum þræði heimakær iðjumaður, sem lét sjaldan verk úr hendi eða huga sleppa. Fjölskyldan, vinir og góðar bókmenntir nutu hans í hléum frá tónlistinni og myndlistinni.
Með styrk Félags íslenskra hljómlistarmanna kom út hljómdiskur á vegum Jazzvakningar með leik Árna í tilefni af 80 ára afmæli hans 5. júní 2008.
Árni var tvíkvæntur og var fyrri kona hans Þorbjörg heitin Biering og eignuðust þau einn son. Síðari kona hans var Kristjana Magnúsdóttir. en þeim varð fjögurra barna auðið. Henni og afkomendunum eru færðar hér innlegar samúðarkveðjur.
Útför Árna hefur farið fram í kyrrþey, en með þessum fátæklegu orðum er kvaddur í þökk mikill hæfileikamaður, sem gott var að eiga að vini í röska hálfa öld.

Hrafn Pálsson
Skammt gerist nú milli hinna stóru högga, nýlega var til moldar borinn Hjörleifur Björnsson bassaleikari og nú hefur foringinn í þeim hópi sem við allir tilheyrðum um hríð á ungdómsárum verið kallaður burt.
Píanó-og básúnuleikarinn og myndlistarmaðurinn Árni Elfar lést þann 5. apríl sl. á áttugasta og fyrsta aldursári.
Ungur að árum hóf Árni hljóðfæraleik, lék bæði á píanó og básúnu, var nánast sjálfmenntaður á bæði hljóðfærin en hin ríkulega tónlistargáfa var honum öruggur vegvísir.
Okkur undirrituðum er minnisstæður tíminn sem við lékum ásamt Hjörleifi með Árna á veitingahúsunum Röðli og síðar Glaumbæ en þar var Árni hljómsveitarstjóri til haustsins 1963.
Ljúflingurinn hávaxni, hrokkinhærði, með þykku gleraugun og brosmilda andlitið hlaut að verða öllum eftirminnilegur sem með honum störfuðu hvort heldur fyrir klaverspilið þar sem þverhandarþykkar akkorður, listilega samansettar, fóru eins og stormsveipir um loftið eða klingjandi ballöður voru töfraðar fram allt eftir því hvað hinn sískapandi hugur bauð löngum og fimum fingrum, eða fyrir myndverkin sem streymdu viðstöðulaust á servíettuna í kaffihléinu, en þar voru hinir ýmsu gestir staðarins festir á blað á snilldarlega kómískan hátt, en því miður var þessarri framleiðslu ekki ætlað langlífi og endaði hún í ruslakörfunni jafnharðan en hefði ella dugað til að fylla margar bækur.
Árni var afar félagslyndur og blandaði geði við marga þá sem sóttu skemmtistaðinn. Þegar hann sat við hljóðfærið sneri hann gjarnan aðeins í átt að salnum til þess að geta betur fylgst með því sem gerðist og notaði þá vinstri fót á pedalann og var þá hægri fótur laus til embættisverks sem nú skal frá greint.
Á Röðli háttaði svo til að bjalla nokkur var hengd undir hljómborð flygilsins hægra megin og í stað þess að Íslandsklukkunni "var hringt til dóma og á undan aftökum" þá sparn Árni hægra fæti við klukkunni góðu í fagnaðarskyni þegar eitthvert af hinum valinkunnu samkvæmisljónum rak höfuðið upp fyrir stigaskörina.
Maður nokkur sagði við Árna að lokinni yfirgripsmiklu píanósólói "mikið svakalega ertu hittinn"! "Þetta er mesta komplíment sem ég hef fengið," sagði Árni og hló sínum dillandi hlátri.
Síðari hluta starfsævi sinnar helgaði Árni að miklu leyti hinni sígildu tónlist með básúnuleik í S.Í. Það gerði hann með glæsibrag þrátt fyrir að vera sjálfmenntaður á hljóðfærið. Einhverju sinni, eftir að hann var hættur, sagði hann eitthvað á þessa leið: "ég hef leikið básúnuhlutverkið í fjölmörgum hinna stóru sinfónísku tónverka heimsins, ég hefði alveg getað hugsað mér að læra eitthvað til þess.
Myndgáfu hafði Árni í ríkum mæli og var myndlistin snar þáttur í lífi hans síðari árin og auk mikils fjölda teikninga og málverka liggja eftir hann myndskreytingar fjölmargra bóka af ýmsu tagi.
Við þökkum þessum ógleymanlega ljúflingi fyrir að hafa fengið að vera með um stundarsakir, minningin er verðmæt.
Við sendum Kristjönu, börnum og öðrum ættingjum samúðarkveðjur.
Gunnar. Sveinn Óli

Hann Árni Elfar er dáinn. Blessaður elsku drengurinn búinn að kveðja á sinn hljóðláta hátt - "í kyrrþey" - einsog hans var von og vísa. Blessuð sé minning hans.

Í þessum fátæklegu kveðjuorðum ætla ég hvorki að rekja æfiferil þessa góða vinar míns né gera honum það, nýlátnum, að flíka afrekum hans á ýmsum sviðum. Slíkt hefði hann kallað "potthlemmaslátt" og ekki við hæfi.

Þó verð ég að segja að mér finnst það svolítið snautlegt ef fjölmiðlar gera þessum fjölskrúðuga listamanni ekki verðug skil að honum látnum.

Við Árni vorum æskuvinir og félagar æfilangt og brölluðum margt saman gegnum tíðina. Árni bjó, þegar við vorum unglingar, með pabba sínum í kjallara á Baldursgötunni og þar var setið löngum stundum og hlustað á plötur og lífsþorstanum svalað í leiðinni.

Það var Árni Elfar sem kynnti mér leyndardóma göfugrar tónlistar og þakklæti mitt nær útfyrir gröf og dauða.

Þegar ég hugsa um hann Árna í dag finnst mér einsog þar hafi farið heilagur maður. Hann var slíkur ljúflingur að fundur við hann var hreinlega mannbætandi.Þess vegna saknaði ég þess sárlega að við hittumst æ sjaldnar eftir því sem á æfina leið og heilsu hans tók að hraka.

Vonandi eru endurfundir á næsta leiti.

Kristjönu og börnunum sendum við Lilja samúðarkveðjur, sem og öllum sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls Árna Elfar.

Flosi Ólafsson

Við sem vorum félagar í samtökum hjartasjúklinga um og eftir síðustu aldamót minnumst sérstsklega jákvæðra  undirtekta  Árna Elfars að koma og spila fyrir fundargesti.  Eins og menn vita hafði Árni sérstaklega þægilega nærveru, hlýtt viðmót hans og framkoma öll hafði sérstök áhrif.

Þegar Árni settist svo við píanóið og hóf að leika  falleg lög þá nutu fundargestir þess mjög, fyrir þessar ánægjustundir viljum við sérstaklega þakka því þær eru svo ljúfar í minningunni. En þegar sjálf fundarstörfin hófust þá dró Árni upp blýant og blað og teiknaði myndir af fundarmönnum, þetta var svo sjálfsagt og eðlilegt í hans huga,  en hjá mörgum fundargestum voru þessar stundir afar minnisstæðar. Á seinni árum hrakaði heilsu Árna þannig að hann gat ekki komið á fundi,  við minnumst góðs félaga og sendum eiginkonu hans og ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Vilhjálmur B. Vilhjálmsson, Ásgeir Þór Árnason

Það koma upp ljúfar og goðar minningar þegar ég hugsa um hann afa.
Alltaf þegar ég var lítil og kom í heimsókn þá hljóp ég alltaf beint inn í herbergið sem afi var að mála. og hann var nú alltaf frekar lokaður ,en ég gaf mér alltaf góðan tíma til að kynnast honum og spyrja bara nógu mikið.

Þegar ég hugsa um þessa góðu tíma þá minnist ég þess að hann var alltaf að blanda liti fyrir mig og leyfa mér að mála og hann hélt alltaf í hendina a mér til að sýna mér hvernig ætti að fara að. En það sem ég lærði mest hjá afa var að spila á píanóið, við sátum kannski tímunum saman að spila, og hann kenndi mér allt sem ég kann í dag. Ég fór að vísu að læra á píanó, en betri kennara gat ég ekki fundið en afa.

Þegar ég var að sýna á tónleikum þá kom hann alltaf, hann missti ekki af tónleikum og mér þótti svo vænt um það.

Ég hef alltaf verið mjög stolt af því að bera ættarnafnið Elfar. Og stundum þegar ég hef átt erftt með að kynnast fólki þá brýt ég alltaf ísinn með því að segja að Árni Elfar sé afi minn. þá fær fólk áhugann og fer að tala við mig og segja mér hvað þau hefðu mikinn áhuga, bæði a á tónlistinni og myndunum hans. Sérstaklega þegar eg var að vinna á elliheimilinu Grund þá átti ég voða góðan vin sem var besti vinur langafa miíns Benedikts Elfar og talaði svo vel um Árna Elfar, enda er ekki annað hægt.

Ég mun alltaf hafa þig i hjarta mínu elsku afi minn og Guð geymi þig.

Þín,

Alexandra Björk Elfar