Leiknir og ÍA styrktu stöðuna

Hilmar Árni Halldórsson og félagar í Leikni eru áfram efstir …
Hilmar Árni Halldórsson og félagar í Leikni eru áfram efstir í 1. deildinni.

Leiknir úr Reykjavík og ÍA styrktu stöðu sína á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld en Leiknir vann HK, 3:2, í hörkuleik í Breiðholtinu og ÍA lagði Hauka, 3:1, á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Leiknir er þá með 23 stig á toppnum og ÍA 21 stig en HK situr eftir með 17 stig í þriðja sætinu.

Matt Horth kom Leikni yfir gegn HK á 18. mínútu en Árni Arnarson jafnaði fyrir Kópavogsliðið fimm mínútum síðar, 1:1. Guðmundur Atli Steinþórsson kom HK yfir á 48. mínútu en Sindri Björnsson jafnaði fyrir  Leikni tveimur mínútum síðar. Það var svo varamaðurinn Ólafur H. Kristjánsson sem skoraði sigurmark Leiknis á 75. mínútu.

ÍA komst í 2:0 gegn Haukum með tveimur mörkum í lok fyrri hálfleiks en Arnar Már Guðjónsson og Ingimar Elí Hlynsson voru þar að verki. Brynjar Benediktsson minnkaði muninn fyrir Hauka á 49. mínútu með glæsilegu skoti  beint úr aukaspyrnu en Arnar Már skoraði aftur eftir snögga sókn Skagamanna á 75. mínútu og innsiglaði sigur þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert