Deila: Gátum unnið stærri sigur

Ronny Deila, knattspyrnustjóri Celtic.
Ronny Deila, knattspyrnustjóri Celtic. AFP

Ronny Deila, hinn norski knattspyrnustjóri skosku meistaranna Celtic, kvaðst vera sáttur við frammistöðu sinna manna í kvöld þegar þeir unnu KR 4:0 í Edinborg en sagði að sigurinn hefði getað orðið stærri.

Staðan var 3:0 í hálfleik fyrir Celtic sem vann einvígi liðanna í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu með 5:0 samanlagt.

„Við vorum dálítið kærulausir í seinni hálfleik. Þá hefðum við átt að halda uppi meiri hraða til þess að geta unnið stærri sigur en ég verð að vera ánægður með 4:0,“ sagði Deila við BBC.

„Fyrri hálfleikurinn var góður. Við byrjuðum leikinn vel og undanfarnar tvær vikur höfum við lagt talsvert upp úr uppstilltum atriðum. Þau skiluðu sér og það erum við ánægðir með. Við sköpuðum okkur góð færi í leiknum. Völlurinn var betri en í fyrri leiknum og ég hefði viljað sjá enn meiri hraða í okkar leik. Við verðum að vinna að því að auka hann.

Við  viljum skapa færi og skemmta áhorfendum. Þá verða menn að vera með boltann og keyra upp hraða. Þetta var ágæt byrjun en við eigum eftir að mæta sterkari andstæðingum,“ sagði Ronny Deila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert